Setningar­há­tíð Hjólað í vinnuna 2021 fór fram nú í morgun í Þróttar­heimilinu í Laugar­dal. Í til­kynningu kemur fram að á­takið hafi verið sett með há­tíð­legum hætti í morgun en að há­tíðin hafi að­eins verið opin boðs­gestum. Hjólað í vinnuna 2021 stendur í þrjár vikur eða til 25. maí. Á þeim tíma eru lands­menn hvattir til að hreyfa sig og nýta sér heilsu­sam­legar, um­hverfis­vænar og hag­kvæmar sam­göngur með því að hjóla, ganga eða nota annan virkan ferða­máta.

Á­vörp fluttu Sig­ríður Jóns­dóttir, 1. vara­for­seti ÍSÍ, Guð­mundur Ingi Guð­brands­son, um­hverfis- og auð­linda­ráð­herra, Lilja Al­freðs­dóttir, mennta- og menningar­mála­ráð­herra, Sigurður Ingi Jóhanns­son sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráð­herra, Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri Reykja­víkur og Einar Sigur­jóns­son, þrí­þrautar­kappi. Öll voru þau sam­mála um mikil­vægi verk­efnisins til að hvetja lands­menn til að velja um­hverfis­vænan, hag­kvæman og heilsu­sam­legan ferða­máta.

Í til­kynningunni kemur fram að Guð­mundur Ingi hafi lagt á­herslu á bar­áttuna í lofts­lags­málum og hvað gott skipu­lag inn­viða skiptir miklu máli í þeirri bar­áttu. Lilja Al­freðs­dóttir ræddi mikil­vægi hreyfingar fyrir heilsuna og benti á hvað það eru mikil lífs­gæði sem fylgja því að búa í borg þar sem auð­velt er að stunda hreyfingu utan­dyra dag­lega. Hún þakkaði ÍSÍ jafn­framt fyrir þetta frá­bæra fram­tak og um leið þá vitundar­vakningu sem fylgir verk­efninu.

Vel gengið að byggja upp aðgengi

Sigurður Ingi í­trekaði hversu vel hefur gengið að byggja upp gott að­gengi fyrir hjól­reiða­fólk og í hans augum markar á­takið sem fer nú fram í 19. sinn upp­haf sumars. Dagur B. Eggerts­son benti á að enginn ferða­máti hafi vaxið jafn hratt á undan­förnum árum og sam­göngu­hjól­reiðar. Hann taldi að þær ættu eftir að vaxa enn frekar með til­komu raf­hjóla. Eitt af mark­miðum Reykja­víkur­borgar er að borgin verði hjól­reiða­borg á heims­mæli­kvarða.

Einar Sigur­jóns­son, þrí­þrautar­kappi kom inn á mikil­vægi þess að vera með bjöllu á hjólinu, sýna til­lits­semi í um­ferðinni, vera vin­gjarn­legur og um­fram allt hafa gaman. Hann sagði einnig skemmti­legar sögur af sínum þrí­þrautar­ferli.

Gestir setningar­há­tíðarinnar hjóluðu síðan verk­efnið form­lega af stað frá Þróttar­heimilinu og tóku hring í Laugar­dalnum.
Mynd/Aðsend

Við þær sér­stöku að­stæður sem nú ríkja í þjóð­fé­laginu er nauð­syn­legt að huga vel að heilsunni og sinna sinni dag­legu hreyfingu. Það er mjög mikil­vægt fyrir vinnu­staði landsins að standa vörð um starfs­andann á þessum for­dæma­lausu tímum. Verk­efnið Hjólað í vinnuna er góð leið til þess að hressa upp á stemninguna og þjappa hópnum saman. Hjól­reiðar eru bæði virkur og um­hverfis­vænn ferða­máti og jafn­framt eru þær frá­bær úti­vist, hreyfing og getur verið öflug líkams­rækt.

Í vinnu­staða­keppni er fyrst og fremst keppt um flesta þátt­töku­daga hlut­falls­lega miðað við heildar­fjölda starfs­manna á vinnu­staðnum. Keppt er í átta keppnis­flokkum út frá stærð vinnu­staða. Að auki er kíló­metra­keppni þar sem keppt er á milli liða um annars vegar heildar­fjölda kíló­metra og hins vegar hlut­fall kíló­metra miða við fjölda liðs­manna í liði. Líkt og á síðasta ári hvetjum við þá sem vinna heiman frá sér að byrja eða enda vinnu­daginn á því að hjóla, ganga eða nýta annan virkan ferða­máta sem nemur kíló­metrum til og frá vinnu. Ein­faldara getur það ekki verið og allir geta tekið þátt.

Megin­mark­mið Hjólað í vinnuna er að vekja at­hygli á virkum ferða­máta sem heilsu­sam­legum, um­hverfis­vænum og hag­kvæmum sam­göngu­máta. Undan­farinn ára­tug hefur orðið gríðar­leg vakning á hjól­reiðum sem heilsu­sam­legum sam­göngu­val­kosti. Ætla má að margir þátt­tak­endur hafi tekið hjól­reiðar upp sem lífs­stíl í fram­haldi af þátt­töku sinni í verk­efninu. ÍSÍ er stolt af því að hafa stuðlað að bættri hjóla­menningu á Ís­landi og orðið til þess að vinnu­staðir og sveitar­fé­lög hafi bætt til muna að­stöðu fyrir hjólandi fólk.

Allar upp­lýsingar um Hjólað í vinnuna er að finna á www.hjola­di­vinnuna.is en þar má finna efni reglur keppninnar, hvatningar­bréf, vegg­spjöld og fleira.

Guð­mundur Ingi lagði á­herslu á bar­áttuna í lofts­lags­málum og hvað gott skipu­lag inn­viða skiptir miklu máli í þeirri bar­áttu
Mynd/Aðsend