Salvör Nordahl, umboðsmaður barna, segir Hjalt­eyrarmálið, sem nú er til mikillar umræðu vegna kynferðisbrota gegn börnum, hafa komið henni á óvart.

„Maður taldi að það væri búið að ná utan um þau heimili sem voru starfrækt á þessum tíma, að vistheimilanefnd hefði lokað málunum. Það kemur mér þess vegna á óvart að enn séu að koma upp mál sem ekki fóru fyrir nefndina,“ segir Salvör.

„Það er hræðilegt að lesa frásagnir þessa fólks. Þær gefa til kynna að hér sé á ferðinni mjög alvarlegt mál sem þarf að fara í saumana á,“ bætir hún við.

Salvör segir að Hjalteyrarmálið sýni mikilvægi þess að mál séu rannsökuð frá grunni ef ábendingar berast. Vistheimilanefnd hafi unnið merkilegt starf, þar sem farið hafi verið í saumana á málum en meira þurfi til.

Lærdómurinn sé kannski sá að við þurfum alltaf að vera vakandi fyrir því að gæði eftirlits og gæði allrar þjónustu við börn séu mikil og að eftirlitið sé raunverulegt.

„Við vitum að börn í þessum aðstæðum eru viðkvæmasti hópur allra barna, það skiptir því gríðarlegu máli að eftirlitið sé gott.“

Spurð hvort ofbeldi gegn börnum kunni að hafa verið meira og algengara hér á landi en í nágrannalöndunum, bendir Salvör á að erfitt sé að meta það. Mörg mjög slæm mál hafi einnig komið upp utan landsteinanna.

„Auðvitað vonum við að nú séu betri tímar en áður í þessum efnum en það eru enn að koma upp mál, sem ítrekar fyrir okkur mikilvægi þess að eftirlit sé gott og virkt. Ég legg áherslu á að börn í þessum aðstæðum eru í gríðarlega viðkvæmri stöðu, þau eiga sér ekkert bakland og þess vegna þurfum við alltaf að vera á tánum,“ segir Salvör.