„Þetta er hollur og góður matur, fjöl­breyttur og greini­lega eldaður af miklum kær­leika,“ segir Haf­dís Hilmars­dóttir, skóla­stjóri Foss­vogs­skóla, en skólinn hefur gert samning við Hjálp­ræðis­herinn um að hann eldi mat fyrir börn í 1. til 4. bekk skólans.

Börn úr Foss­vogs­skóla fengu að nýta hús­næði Hjálp­ræðis­hersins í upp­hafi skóla­árs vegna við­gerða á Foss­vogs­skóla. Þau voru svo hrifin af matnum hjá Hernum að á­kveðið var að semja við Hjálp­ræðis­herinn um að hann héldi á­fram að elda mat fyrir nem­endur eftir að skóla­starfið var flutt aftur í Foss­vogs­skóla.

„Þau elda þetta hjá sér í nýjum húsa­kynnum Hjálp­ræðis­hersins að Suður­lands­braut 72 og koma svo með matinn til okkar í hverju há­degi,“ segir Haf­dís.

Húsa­kynni Hjálp­ræðis­hersins að Suður­lands­braut 72.

Skóla­stjórinn segir mikla á­nægju hjá öllum með matinn og þjónustuna.

„Starfs­fólkið frá Hernum er dá­sam­legt. Þau sjá um þetta allt saman, elda matinn, koma með allan búnað, svo sem leir­tau, og gefa börnunum að borða. Það þarf lagni til þess að láta þetta ganga vel, því að við erum ekki með mat­sal heldur borða börnin í skóla­stofunum,“ segir Haf­dís á­nægð.

„Fólkið frá Hjálp­ræðis­hernum kemur með svo mikla hlýju og fal­lega orku með sér og það eru allir al­sælir með þetta fyrir­komu­lag,“ heldur Haf­dís á­fram.

Sig­rún Hauks­dóttir, mót­töku­stjóri Hjálp­ræðis­hersins, segir skóla­krakkana hafa komið til þeirra í lok ágúst.

„Við vorum tvær hérna hjá Hernum sem heyrðum af hús­næðis­vanda barnanna, en í ljós hafði komið að skólinn var ó­not­hæfur vegna myglu, svo við buðum fram að­stoð okkar. Við erum með fyrsta flokks hús­næði, stórt eld­hús og at­vinnu­mann til að elda, enda tökum við á móti 100-170 manns dag­lega í mat.“

Herinn hélt á­fram að elda

Sig­rún segir að þegar börnin fóru aftur í Foss­voginn hafi Herinn verið beðinn að halda á­fram að elda.

„Við gefum nem­endunum heimilis­mat, úr fyrsta flokks hrá­efni og notum mikið græn­meti. Við eldum allt frá grunni og reynum að hafa fisk að minnsta kosti tvisvar í viku,“ segir Sig­rún.

Í gær var gamal­dags plokk­fiskur á boð­stólum með rúg­brauði og kar­töflum – sem gerði aug­ljós­lega mikla lukku hjá krökkunum.

„Oft koma þau hlaupandi um leið og við komum og hrópa „hvað er í matinn, hvað í matinn?“ því þau eru svo spennt,“ segir Sig­rún.

Helst segir Sig­rún að börnin kvarti undan gufu­soðnum fiski. „En þá fá þau sér bara tómat­sósu út á fiskinn,“ bendir hún á.

Sig­rún segir að síðan séu á boð­stólum alls kyns fisk­réttir sem börnin séu mjög hrifin af. Einnig kjúk­lingur, slátur og fleira.

„Þetta eru ofsa­lega góðir og kurteisir krakkar sem borða mjög vel,“ segir Sig­rún Hauks­dóttir mót­töku­stjóri Hjálp­ræðis­hersins.