Hjálparstofnanir vinna nú hröðum höndum við að koma sendingum af neyðarpillunni, getnaðarvarnarpillu sem nota má eftir kynmök, til Úkraínu. Tilkynningar um nauðganir í kjölfar innrásarinnar hafa borist í hrönnum.
Góðgerðarssamtökin International Planned Parenthood Federation (IPPF) hafa sent 25 þúsund pakka af lyfinu til Úkraínu, samkvæmt frétt The Guardian. Samhliða því hafa sjálfboðaliðar í Evrópu safnað lyfjagjöfum og flutt á spítalana.
Mikilvægt er að lyfin komist tímanlega í réttar hendur enda þarf að taka lyfið ekki seinna en fimm dögum eftir atburðinn. Lyfið ætti að vera gefið út til allra sem kunna að þurfa á því að halda innan tímamarkanna segir Julie Taft frá IPPF í samtali við The Guardian.
IPPF sendir einnig birgðir af þungunarrofslyfjum sem hægt er að nota allt að 24 vikum eftir að getnaður á sér stað.
Margar frásagnir af kynferðisofbeldi af höndum hermanna
Neyðarpillur voru til víða í Úkraínu áður en stríðið hófst en birgðarlínur hafa truflast samhliða því sem kynferðisofbeldi hefur aukist. Sérstaklega eftirspurn er eftir þessum lyfjum í austurhéröðum Úkraínu, samkvæmt góðgerðasamtökunum Paracrew sem senda mat og lyf til landsins.
Greint var frá því nýlega að réttarlæknar sem skoða uppgrafin lík í bæjum í kringum Kænugarð segjast hafa fundið merki um að sumum kvennanna hafi verið nauðgað áður en þær voru teknar af lífi.
Tugir kvenna frá útjaðri Kænugarðs hafa þegar komið fram og lýst árásum sem þær segjast hafa orðið fyrir af hendi rússneskra hermanna. Framburðir tala meðal annars um hópnauðganir, árásir þar sem konum var ógnað með byssu og nauðganir framdar fyrir framan börn.
Lyudmila Denisova, embættismaður mannréttindaskrifstofu Úkraínu, skrásetti mál 25 kvenna sem voru haldnar föngum í kjallara í Bútsja og nauðgað kerfisbundið.