Hjálpar­stofnanir vinna nú hröðum höndum við að koma sendingum af neyðar­pillunni, getnaðar­varnar­pillu sem nota má eftir kyn­mök, til Úkraínu. Til­kynningar um nauðganir í kjöl­far inn­rásarinnar hafa borist í hrönnum.

Góð­gerðars­sam­tökin International Planne­d Parent­hood Federation (IPPF) hafa sent 25 þúsund pakka af lyfinu til Úkraínu, sam­kvæmt frétt The Guar­dian. Sam­hliða því hafa sjálf­boða­liðar í Evrópu safnað lyfja­gjöfum og flutt á spítalana.

Mikil­vægt er að lyfin komist tíman­lega í réttar hendur enda þarf að taka lyfið ekki seinna en fimm dögum eftir at­burðinn. Lyfið ætti að vera gefið út til allra sem kunna að þurfa á því að halda innan tímamarkanna segir Juli­e Taft frá IPPF í sam­tali við The Guar­dian.

IPPF sendir einnig birgðir af þungunar­rofslyfjum sem hægt er að nota allt að 24 vikum eftir að getnaður á sér stað.

Margar frásagnir af kynferðisofbeldi af höndum hermanna

Neyðar­pillur voru til víða í Úkraínu áður en stríðið hófst en birgðar­línur hafa truflast sam­hliða því sem kyn­ferðis­of­beldi hefur aukist. Sér­stak­lega eftir­spurn er eftir þessum lyfjum í austur­hé­röðum Úkraínu, sam­kvæmt góð­gerða­sam­tökunum Paracrew sem senda mat og lyf til landsins.

Greint var frá því ný­lega að réttar­­læknar sem skoða upp­grafin lík í bæjum í kringum Kænu­garð segjast hafa fundið merki um að sumum kvennanna hafi verið nauðgað áður en þær voru teknar af lífi.

Tugir kvenna frá út­jaðri Kænu­­garðs hafa þegar komið fram og lýst á­rásum sem þær segjast hafa orðið fyrir af hendi rúss­neskra her­manna. Fram­burðir tala meðal annars um hóp­nauðganir, á­rásir þar sem konum var ógnað með byssu og nauðganir framdar fyrir framan börn.

Lyu­dmila Deni­sova, em­bættis­­maður mann­réttinda­­skrif­­stofu Úkraínu, skrá­­setti mál 25 kvenna sem voru haldnar föngum í kjallara í Bútsja og nauðgað kerfis­bundið.