Félag atvinnurekenda, FA, telur brýnt að ráðast í heildarendurskoðun á áfengislögum. Fram kemur í bréfi sem Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, sendi Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra í gær, að ráðuneytið hafi ekki svarað erindum um hvort starfsemi áfengisverslana með erlendri kennitölu á netinu sé lögleg hér á landi.

Ráðuneytið sagði í svarbréfi til félagsins í október að breyta þyrfti lögum til að reka vefverslanir með áfengi á íslenskri kennitölu. ÁTVR hefur stefnt eigendum verslananna fyrir dómstóla.

Í bréfi Ólafs segir að fleiri leiðir séu fram hjá einkarétti ÁTVR á áfengissölu, þar á meðal bein sala brugghúsa. „Þrátt fyrir að lagaheimild skorti er það opinbert leyndarmál að mörg smærri brugghús selja gestum sínum áfengi í neytendaumbúðum til neyzlu annars staðar,“ segir í bréfinu. „Þriðja leiðin framhjá áfengiseinkasölunni eru svokallaðir vín- eða smökkunarklúbbar, þar sem meðlimir kaupa í smásölu af innflytjendum vín, sem aldrei fara um sölukerfi Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins.“ Í ljósi þess að stjórnvöld geri ekki athugasemd við slíka starfsemi, telur Ólafur að bann áfengislaga sé orðið býsna götótt