Hjákona mannsins sem viðurkennt hefur að hafa myrt fjölskyldu sína í Colorado, hefur stigið fram í fjölmiðlum og talað um samband sitt við manninn.

Chris Watts hefur viðurkennt að hafa myrt ófríska eiginkonu sína og tvær kornungar dætur í ágúst. Hjákonan, Nichol Kessinger, segir við Denver Post að kynferðislegt samband þeirra hafi hafist í júlí. Þau hafi hisst allt að fimm sinnum í viku.

„Hann laug öllu,“ sagði hún við miðilinn. Hún segir að þau hafi kynnst í júní, í gegn um vinnu. Hann hafi sagt henni að þau eiginkonan væru að ganga í gegn um skilnað, sem væri nánast frágengin. „Ég trúði honum,“ sagði hún.

Sjá einnig: Segir eigin­konu sína hafa myrt dætur þeirra

Í lok júlí sagði Watts henni að skilnaðurinn væri frágenginn. Það var svo um miðjan ágúst sem Watts greindi frá því að konan hans væri horfin með dætur þeirra tvær. „Börnin eru mér allt,“ sagði hann á sínum tíma. 

Kessinger ber að Watts hafi sagt henni frá hvarfinu en að honum hafi virst sama. Þegar málið rataði í fjölmiðla hafi hún fengið áfall. Þá hafi hún áttað sig á að hann væri enn giftur. „Ég hugsaði með mér að ef hann gæti logið þessu að mér, hvað annað gæti hann þá verið að fela?“ sagði hún í viðtalinu. Þegar hún reyndi að spyrja kærasta sinn um málið hafi hann farið undan í flæmingi.


Kessinger hafði að lokum samband við rannsakendur og greindi frá sambandi þeirra Watts. „Ég vildi bara hjálpa,“ sagði hún við dagblaðið. Það hefði verið hræðilegt að vita af konu með tvö börn sem ekkert hefði spurst til.

Féinum dögum eftir hvarfið var Watts handtekinn og lík fjölskyldunnar fundust. Kessinger segir að allt frá þeirri stundu hafi hún verið viss um að hann væri morðingi.

Watts bíður dóms á mánudag. Hann hefur játað allt. Saksóknari mun fyrir vikið ekki fara fram á dauðarefsingu. Að sögn hefur fjölskylda hinnar látnu gengist við þeirri ákvörðun. Watts bíður lífstíðardómur án möguleika á reynslulausn.