Mikill hiti er nú á austan­verðu landinu en um há­degi í dag mældist til að mynda hitinn 19 stig við Kolla­leiru á Reyðar­firði og klukkan 13 mældist hitinn 19,2 stig. Glampandi sól er nú á svæðinu en klukkan tíu í morgun var hitinn kominn yfir sex­tán stig.

Hrafn Guð­munds­son, veður­fræðingur hjá Veður­stofu Ís­lands, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að hitinn í dag sé lík­lega met fyrir miðjan mars mánuð. Hita­met fyrir 11. til 20. mars var slegið í gær þegar tæp­lega 18 stiga hiti mældist í Reyðar­firði.

Hitinn í dag nær þó ekki metinu fyrir allan mars en mesti hiti sem mælst hefur í mars mældist árið 2012 þegar hitinn fór upp í 20,5 stig í Kví­skerjum í Ör­æfum. Er það í fyrsta sinn sem hitinn hefur farið yfir 20 stig í mars hér á landi. „Allt yfir 16 gráður er talið ó­venju­legt í mars,“ segir Hrafn.

Veðurkerfið með kúnstir

Að sögn Hrafns er hitinn á Austur­landi til­kominn vegna mikillar hæðar sem myndaðist við Bret­lands­eyjar eftir helgina en hæðin tekur loft suður í hafi og beinir því til landsins.

„Þetta er bara vegna þess hvernig veðra­kerfin raða sér upp að hverju sinni og stundum læsist það í ein­hverri stöðu, þá fær það tíma til þess að gera ein­hverjar svona kúnstir,“ segir Hrafn en hann segir að næstu daga muni kólna aftur.

„Þetta helst nú ekki mikið lengur,“ segir Hrafn en hæg­fara kulda­skil munu fara yfir norð­vestan­vert landið næstu daga. Hitinn ætti því að færast í eðlilegt horf strax á morgun en enn má gera ráð fyrir hlýju veðri.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Skjáskot/Veðurstofa Íslands