Veðurfarið í nýliðnum júlímánuði var rysjótt og umhleypingasamt um allt land, svo ekki sé meira sagt. Lofthiti var lægri en oft og tíðum í þessum miðsumarmánuði á Íslandi – og til marks um það komst hann aldrei upp fyrir tuttugu gráðurnar í Reykjavík, þótt sólríkt hafi þar verið í marga daga.

„Meðalhitinn á landinu í júlí var í kringum tíu gráður, sem er í lægri kantinum – og má heita að það hafi verið tilfinnanlegur skortur á hlýjum dögum,“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur.

Samkvæmt bráðabirgðatölum fór hitinn hæst í 20,3 gráður á Vopnafirði og Seyðisfirði 28. júlí. Á Norðurlandi virðist hann hafa farið hæst í 18,0 gráður í Vatnsdal 25. júlí og deginum áður fór hann hæst í 19,6 gráður á Vesturlandi, en það var í Húsafelli.

Í Reykjavík hefur hitinn farið mest í 17,6 gráður í sumar, en það var raunar 9. júní. Meðalhámarkshiti í borginni var 13,4 gráður í júlí.

Því má segja að hitametið á Íslandi hafi aldrei verið í hættu, en frá því mælingar hófust hér á landi hefur hitinn á landinu aldrei mælst hærri en 30,5 gráður á Teigarhorni í Berufirði 22. júní 1939.

„Sökudólgurinn sem olli þessari tíð er þrálát hæð sem tók sér bólfestu vestur af Bretlandseyjum og stýrði hverri lægðinni af annarri yfir landið, úr suðvestri til norðausturs, en þær viðhéldu norðanvindum yfir landinu,“ segir Sigurður og má heita að nafni hans – stormurinn – hafi farið svolítið í taugarnar á landsmönnum í nýliðnum mánuði, enda var hann oft og tíðum nístingskaldur. Hálendið bar merki þessarar veðráttu, en nokkrum sinnum snjóaði í fjöll, einkum fyrir norðan og austan, ekki síst í Dyngjufjöllum í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar þegar tíu sentimetra jafnfallinn snjór lá yfir Drekagili.

Veðrinu í júlí á Íslandi í ár verður seint jafnað við hitabylgjuna á meginlandi Evrópu sem ætlaði að sliga íbúa þar um slóðir, en þá féll hvert hitametið af öðru, stundum dag eftir dag, svo sem á Bretlandseyjum, en þar mældist hitinn endurtekið yfir fjörutíu gráðum upp úr miðjum mánuðinum.

Ástandið var enn verra sunnar í Evrópu, en hitinn fór yfir 45 gráður á Spáni á þessum tíma og fór hæst í 47 stig í Portúgal með þeim afleiðingum að skógareldar geisuðu á stórum svæðum, svo til eftir endilangri álfunni, en til að mynda brunnu stór svæði í Úkraínu ofan í skálmöldina þar um slóðir.

Sigurður á von á því að veðrið á Íslandi verði skaplegra í ágúst en í nýliðnum mánuði.

„Það þarf kannski ekki mikið til,“ segir hann og bætir því við að horfur séu bærilegar hvað hita varði. „Vandinn er sá að eftir svona langvarandi lágan sumarhita þarf svo mikið að gerast til að snúa dæminu við til langframa,“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson.