Veðurstofan spáir vestan og norðvestan 3-10 m/s í dag. Það verður víða bjart veður, en það eru líkur á þokubökkum við vesturströndina. Hiti verður yfirleitt á bilinu 13 til 23 stig, hlýjast á Suður- og Suðausturlandi. Það þykknar upp á norðaustanverðu landinu síðdegis og það verður dálítil rigning þar í kvöld.

Á morgun verða norðan 5-13 m/s og lítilsháttar rigning norðan- og austanlands í fyrstu, en þurrt þar eftir hádegi. Hiti verður 7 til 14 stig. Það verður bjart á köflum sunnan heiða og hiti á bilinu 15 til 24 stig, hlýjast á Suðurlandi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:
Norðaustan 5-13 m/s og léttskýjað, en skýjað austanlands. Hiti frá 7 stigum með austurströndinni, en allt að 20 stig í uppsveitum á Suður- og Vesturlandi.

Á laugardag:
Austan 5-10 m/s. Dálítil rigning suðaustanlands. Bjart með köflum á vesturhelmingi landsins, en líkur á skúrum síðdegis. Hiti frá 8 stigum austast upp í 19 stig á Vesturlandi.

Á sunnudag, mánudag (lýðveldisdagurinn) og þriðjudag:
Útlit fyrir austlæga eða norðaustlæga átt og rigningu með köflum, en yfirleitt þurrt og bjartara um landið vestanvert. Hiti 12 til 18 stig, en svalara austanlands og á annesjum fyrir norðan.