„Þessar svokölluðu tíðarfarsspár eða veðurlagsspár náðu ekki að fanga þetta kuldakast sem var á Norðurlandi um helgina og gáfu ekki þetta til kynna,“ sagði Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur við Fréttablaðið um veðrið í júnímánuði.
„Síðasta helgi var náttúrlega skelfileg og ekki nema von að fólk vilji vita hvort það eigi von á öðru svona. Þótt það hafi ekki verið eins kalt syðra blés það kröftuglega að það var óvíða notalegt. Hitinn var mest að skrölta einhvers staðar í fjórtán, fimmtán stigum.“
Miðað við reiknilíkön sín sér Sigurður ekki fyrir sér að tuttugu stiga hitamúrinn verði rofinn á Norðurlandi í júlí.
„Svipaða sögu er að segja syðra. Það er aldrei loku fyrir það skotið. Þessar spár ná kannski aldrei utan um toppana en það er óttaleg flatneskja í þessu. Þetta er búið að vera mjög brattgengt en mér sýnist að það verði kannski jafnara veður með minni öfgum.“
Sigurður segir kuldann í júní meðal annars skýrast af lægðum sem hafi farið suður eða yfir Ísland og hafi dregið á eftir sér kaldar og norðlægar áttir.
„Meginskýringin er að norðurátt er með loftmassa sem á uppruna sinn fyrir norðan land og hlýju tungurnar hafa verið að draga þær suður og austur fyrir land. Þær hafa illa náð yfir landið og það er dálítill svoleiðis bragur ennþá.“
Veðrið í júlí segir Sigurður að komi til með að vera með svipuðu móti.
„Ef við erum að horfa á meðaltöl erum við alls ekki að skjóta yfir þau. Hins vegar er ágúst miklu jákvæðari á alla kanta. Ég á von á áframhaldi á þessu fyrir norðan ef undan er skilin góð vika í næstu viku. Auðvitað vonast maður til og hefur fullan skilning á því ef fólk vill njóta veðurblíðu. Bjartsýnin verður að ráða för.“