„Þessar svo­kölluðu tíðar­fars­spár eða veður­lags­spár náðu ekki að fanga þetta kulda­kast sem var á Norður­landi um helgina og gáfu ekki þetta til kynna,“ sagði Sigurður Þ. Ragnars­son veður­fræðingur við Frétta­blaðið um veðrið í júní­mánuði.

„Síðasta helgi var náttúr­lega skelfi­leg og ekki nema von að fólk vilji vita hvort það eigi von á öðru svona. Þótt það hafi ekki verið eins kalt syðra blés það kröftug­lega að það var ó­víða nota­legt. Hitinn var mest að skrölta ein­hvers staðar í fjór­tán, fimm­tán stigum.“
Miðað við reikni­líkön sín sér Sigurður ekki fyrir sér að tuttugu stiga hita­múrinn verði rofinn á Norður­landi í júlí.

„Svipaða sögu er að segja syðra. Það er aldrei loku fyrir það skotið. Þessar spár ná kannski aldrei utan um toppana en það er ótta­leg flat­neskja í þessu. Þetta er búið að vera mjög bratt­gengt en mér sýnist að það verði kannski jafnara veður með minni öfgum.“

Sigurður segir kuldann í júní meðal annars skýrast af lægðum sem hafi farið suður eða yfir Ís­land og hafi dregið á eftir sér kaldar og norð­lægar áttir.

„Megin­skýringin er að norður­átt er með loft­massa sem á upp­runa sinn fyrir norðan land og hlýju tungurnar hafa verið að draga þær suður og austur fyrir land. Þær hafa illa náð yfir landið og það er dá­lítill svo­leiðis bragur enn­þá.“

Veðrið í júlí segir Sigurður að komi til með að vera með svipuðu móti.

„Ef við erum að horfa á meðal­töl erum við alls ekki að skjóta yfir þau. Hins vegar er ágúst miklu já­kvæðari á alla kanta. Ég á von á á­fram­haldi á þessu fyrir norðan ef undan er skilin góð vika í næstu viku. Auð­vitað vonast maður til og hefur fullan skilning á því ef fólk vill njóta veður­blíðu. Bjart­sýnin verður að ráða för.“