Mikill hiti er á fyrsta fundi nýkjörinnar borgarstjórnar sem hófst klukkan 14. Minnihluti borgarstjórnar hefur farið mikinn og sakar hann meirihlutann um leka á upplýsingum um framboð í skipan nefnda innan borgarinnar. 

Málið snýst um skipun fulltrúa í umhverfis- og heilbrigðisráð, sem meirihlutinn lagði til að yrði stofnað. Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gekk í pontu þegar málið var tekið fyrir og spurðist fyrir um tilgang ráðsins. Lýsti hún því að tillögur meirihlutans væru „ansi hráar“.

Líf Magneudóttir, sem mun koma til með að verða formaður ráðsins, var Mörtu til svara og sagði hún grænu málin myndu koma til með að skipa veglegan sess í rekstri borgarinnar. Sagði hún því næst að ánægjulegt væri að Marta hygðist sitja í ráðinu og ítrekaði Líf að hún hlakkaði til samstarfsins.

Marta steig aftur í pontu og þótti svör Lífar ekki nógu skýr. Gerði hún enn fremur alvarlegar athugasemdir við að Líf hefði vitneskju um að Marta hygðist sitja í ráðinu.

„Trúnaðarbrestur“ á fyrsta klukkutíma nýrrar stjórnar

„Vissulega mun liggja hér fyrir fundinum tillaga þess efnis. Ég skil hins vegar ekki að búið að sé búið að fullvissa suma borgarfulltrúa um hverjir muni sitja hér í ráðum en aðra ekki,“ sagði Marta.

Eyþór Arnalds, flokksbróðir Mörtu, steig næstur í pontu og tók undir áhyggjur hennar. Sjálfstæðisflokkurinn og minnihlutinn hefði engar upplýsingar fengið um það hverjir myndu sitja í ráðum og hverjir ekki. Honum fyndist því óeðlilegt að minnihlutaflokkarnir þyrftu að senda inn framboð í ráð borgarinnar.

„Þetta er fyrsta kennslustundin um hvernig hlutum er raunverulega háttað hér,“ sagði Eyþór en hann vill láta rannsaka hvernig upplýsingarnar bárust Líf.

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, viðraði einnig áhyggjur sínar. „Það er ekki liðinn klukkutími og strax er kominn mikill trúnaðarbrestur,“ sagði Vigdís. Einnig lét hún borgarfulltrúa meirihlutans heyra það fyrir hlátrasköll á meðan ræðu hennar stóð.

Nafn Gústafs Níelssonar bar á góma

„Nú heyrist hlátur hér á vinstri vængnum. Ég kannast við þetta í þinginu,“ sagði Vigdís og fór fram á að meintur leki yrði rannsakaður.

Líf var næst upp í pontu til svara og sagði hún að eðlilegt væri að fólk ræddi málin á göngum ráðhússins. Henni hefði ekki dottið það í hugarlund að um væri að ræða leyndarmál og baðst afsökunar ef hún væri að koma upp um „hernaðarleyndarmál svokallaðrar stjórnarandstöðu“.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði að eðlilegt teldist að flokkarnir sendu frá sér lista yfir fulltrúa í ráð borgarinnar. Það hefði tíðkast frá því að upp komst um skoðanir Gústaf Níelssonar á múslimum, en Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, skipaði hann sem varamann í mannréttindaráði. Borgarstjórn hafi fengið á sig töluverða gagnrýni í kjölfar þess. Dagur grínaðist með ummæli Sveinbjargar Birnu sem sagðist hafa átt að „gúggla“ Gústaf betur í eftirminnilegu Kastljósviðtali á sínum tíma.

Sagði Dagur að ekki hefði gengið að fá sendar tilnefningar frá flokkum minnihlutans fyrir helgi. Það hafi gengið eftir í gærkvöldi en tilgangurinn er að meirihluti og minnihluti bjóði fram sameiginlegar tillögur til sæta í mismunandi nefndum borgarinnar. Sjálfkjörið sé því í nefndir þar sem minnihlutinn hafi komið sér saman um nefndarsæti.

„Það er enginn glaður í dag“

Marta tók aftur til máls og krafðist hún þess að málið yrði rannsakað. 

„Það er ekki boðlegt að borgarstjóri tali með þeim hætti og noti smjörklípu eins og hann hefur oft gert í þessum sal. Að vera að nafngreina hér persónur eins og hann gerir í sínu tali. Hann ætti að biðja viðkomandi afsökunar, mér finnst þetta til háborinnar skammar,“ sagði Marta.

Líf tók til tals næst og sagði umræðuna vera komna í þrot. Fráleitt væri að ýja að því að starfsfólk ráðhússins hefði lekið upplýsingum. Næstu fjögur ár yrðu eins og spænski rannsóknarrétturinn.

„Það er enginn glaður í dag. Kannski var einhver glaður í spænska rannsóknarréttinum, ég veit það ekki. Ég hef reynt að útskýra mál mitt eins og best verður á kosið. Það er greinilegt að verið er að gíra sig upp í stjórnarandstöðu minnihlutans,“ sagði Líf og bætti við, í það sem auðvelt er að túlka með kaldhæðni, að gaman væri að Sósíalistaflokkurinn tæki þátt í.

Fundur stóð enn yfir þegar þessi frétt var skrifuð en 54 mál eru á dagskrá.