Veðrið verður ekki jafn ljúft fyrir sunnan og vestan í dag. Þar verður þungbúið með viðloðandi súld og rigningu og hiti á bilinu 8 til 13 stig.

Á Norður- og Austurlandi verður hins vegar bjart veður og hiti 14 til 20 stig. Það er líklegt að fyrstu 20 stig ársins mælist í dag og í hugleiðingum veðurfræðings segir að skjóta megi á að hæsti hiti dagsins á landinu verði 21 stig á veðurstöðinni í Ásbyrgi.

Sunnanáttin gefur eftir á morgun

Á morgun gefur sunnanáttin eftir og verður yfirleitt á bilinu 5-10 metrar á sekúndu.

Á sunnan- og vestanverðu landinu má búast við dálitlum skúrum en mögulega sést aðeins til sólar milli skúranna. Norðaustantil verður áfram útlit fyrir þurrt og bjart veður, en hitinn nær væntanlega ekki eins hátt og í dag og gæti orðið kringum 18 stig þegar best lætur.