Veðurstofan spáir víða góðu veðri í dag. Að sögn veðurfræðings er lægð suðvestur af landinu sem beinir hlýrri suðvestan átt til landsins.

Víða verður vindur á bilinu 5 til 13 metrar á sekúndu en norðan- og norðvestanlands verða 15 til 20 metrar á sekúndu eftir hádegi og í kvöld hvessir síðan á Austfjörðum.

Þegar það líður á daginn þykknar upp á vestanverðu landinu og í kvöld verður komin súld eða rigning með köflum þar þó áfram verði bjartviðri austan til. Frostlaust verður á láglendi í dag, hiti á bilinu 2 til 9 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag (föstudagurinn langi):
Suðvestan 10-18 metrar á sekúndu, en yfirleitt hægari sunnanlands. Skýjað og sums staðar dálítil væta, en léttskýjað um landið austanvert. Hiti 4 til 9 stig.

Á laugardag:
Suðvestan 13-20 og dálítil væta um morguninn, en áfram þurrt eystra. Snýst svo í norðan og norðvestan 10-18 metrar á sekúndu með snjókomu eða slyddu, fyrst norðvestan til. Kólnandi veður.

Á sunnudag (páskadagur):
Hvöss norðanátt og snjókoma eða él um landið norðanvert, en þurrt að kalla sunnan heiða. Frost 4 til 15 stig.

Á mánudag (annar í páskum) og þriðjudag:
Útlit fyrir norðlæga átt og úrkomulítið veður. Dregur úr frosti vestan til.