Hitinn hefur farið yfir 43 gráður á selsíus 35 daga það sem af er ári. Fyrra metið féll árið 2011 en á­fram er búist við miklum hitum í borginni.

Hita­met féll í banda­rísku borginni Phoenix í Arizona á sunnu­dag þegar hitinn náði 110 gráðum á fahren­heit-kvarðanum í 34 skipti á þessu ári. 110 gráður á fahren­heit eru 43,3 gráður á selsíus.

Fyrra metið, 33 dagar, hafði staðið frá árinu 2011 en 35 dagurinn á þessu ári bættist við í gær, mánu­dag. Á­fram er búist við miklum hlýindum í Phoenix næstu daga og því gætu fleiri dagar bæst við um­rætt met.

„Að öllum líkindum förum við yfir 40 daga á þessu ári, hugsan­lega snemma í næstu viku,“ segir Chris Brec­ken­rid­ge veður­fræðingur í sam­tali við Arizona Repu­blic.

Í­búar í Phoenix hafa verið varaðir við þessum miklu hitum og eru þeir hvattir til að halda sig innan­dyra yfir heitasta tíma dagsins og drekka nóg af vatni.

Phoenix er ein allra heitasta borg Banda­ríkjanna og fer hitinn þar sjaldan undir 20 gráður, nema þá helst í desember og janúar.