Hundruðum manna var forðað frá heimilum sínum vegna gróðurelda sem geisuðu á Spáni, í Frakklandi og Portúgal á föstudaginn. Embættismenn víða um Evrópu hafa gefið út viðvaranir vegna yfirstandandi hitabylgju í álfunni sem hefur jaðrað við fjörutíu gráður þar sem verst er og hefur kveikt suma verstu gróðureldana á síðustu áratugum.

Alþjóðaveðurfræðistofnunin varaði í gær við því að hitabylgjan kæmi til með að fanga mengunarefni í andrúmsloftinu og draga þannig úr loftgæðum, sér í lagi í borgum og bæjum. Frá 7. til 13. júlí voru 238 dauðsföll skráð í Portúgal í tengslum við hitabylgjuna. Í Bretlandi hefur verið spáð hitameti á mánudaginn og þriðjudaginn og rauðar viðvaranir voru gefnar út í hlutum Englands í fyrsta skipti.

Gróðureldar hafa geisað um allt Portúgal í hitabylgjunni sem stendur yfir og hefur fjöldi hús orðið eldinum að bráð. Víða hefur hitinn farið yfir fjörutíu gráður. Hér hleypur verkamaður í timburverksmiðju í Albergaria a Velha undan eldhafinu.
Mynd/getty
Slökkviliðsflugvél sprautar vatni yfir skógarelda á Datça-skaganum í Tyrklandi. Tyrkneskir embættismenn sögðu á fimmtudag að stjórn hefði náðst á eldunum um sólarhring eftir að þeir kviknuðu. Það tók sjö flugvélar og fjórtán þyrlur til að hemja eldinn.
Mynd/getty
Hjólbarði liggur hér á þurrum botni þess sem á að vera hluti Lindoso-vatnsbólsins nærri Orense á Spáni. Í byrjun sumarsins voru vatnsból Spánar um tuttugu prósentum undir meðalvatnsmagni vegna þurrka.
Mynd/epa
Slökkviliðsmaður reynir að hafa hemil á skógareldum í La Teste de Buch í Gironde í suðvesturhluta Frakklands. Héraðið glímir nú við verstu elda í um tuttugu ár. Alls hafa um 2.800 hektarar lands brunnið, rúmlega 6.500 manns hefur verið forðað frá svæðinu.
Mynd/epa
Fyrir viku sveif svart reykský yfir Cinecittà-hverfinu í Róm vegna elds sem kviknaði í Centocelle-fornleifagarðinum í austurhluta borgarinnar og breiddist út í bílhlutavöruhús í hverfinu. Borgaryfirvöld báðu fólk að halda sig frá svæðinu.
Mynd/getty