Hitabylgjur hafa gengið yfir Spán síðustu daga og hafa fjöldamörg hitamet fyrir júní verið slegin. Íslendingasamfélagið á Spáni hefur fundið vel fyrir þessum veðurfarsbreytingum.

„Þetta er búið að vera illþolandi. Við erum eiginlega bara búin að vera meira inni en úti. Þetta er eiginlega ekki hægt,“ segir Már Elíson, öryggis og þjónustufulltrúi félags húseigenda á Spáni. „Hérna við ströndina hjá okkur hefur hitinn verið að fara í 36 til 37 gráður.

Már er staddur í Torrevieja á Costa Blanca ströndinni á suðaustur Spáni og segir að blessunarlega hafi þó ekki verið mikill raki í hitanum.

„Hjá okkur hefur hitinn verið að fara í 36 til 37 gráður,“ segir Már og bætir við „Vanalega við strendurnar er mikill raki en við höfum sloppið ansi vel við hann og þannig er þetta minna óþol heldur en væri,“

Miklu verra en síðustu ár

Öflugt Íslendinga samfélag er starfrækt á Costa Blanca svæðinu en Facebook síða hópsins telur yfir 13 þúsund manns.

Már segir að hún sé meðal annars notuð til þess að senda út viðvaranir þegar veður verður mjög heitt en einnig sé haldinn fundur einu sinni í viku hjá félagi húseigenda á Spáni og þar sé veðurviðvörunum komið á framfæri.

„Við sem búum hérna og erum hérna mikið við erum farin að þekkja þetta. Það þarf eiginlega ekki að margítreka þetta við okkur en við fylgjumst öll vel með. En þetta er miklu verra en síðustu ár,“ segir Már og bætir við. „Alveg eins og rigningin sem var hérna í mars og apríl, hún var sú lengsta í manna minnum og þessi hiti er sá mesti í manna minnum svona snemma árs.“

Ferðamenn í Cordoba á Spáni taka sér pásu til þess að sleppa úr hitanum.
Mynd/epa

Bylgjan sem betur fer í rénun

Í samtali sem Fréttablaðið átti við Sigurð Þ. Ragnarsson eða Sigga „Storm“ segir hann að hitabylgjan sé sem betur fer í rénun.

„Bylgjan er staðsett á suðaustur Spáni og teygir sig inn á Íslendingasvæðið.“ Segir Sigurður en nefnir til dæmis að þrátt fyrir að bylgjan sé í rénun sé enn mjög heitt á Spáni.

„Í dag var til dæmis 37 stiga hiti á Mallorca“ segir hann.

Hitabylgjur hafa nýlega gengið yfir Evrópu og hafa hitamet fallið bæði á Spáni í Frakklandi og Bretlandi.

Fram kom í Washington Post að yfirvöld á Spáni út sendu út viðvaranir vegna skógarelda og náðu þær yfir nánast allt landið. Einnig var greint frá því að hundruð ungra fugla hefðu látist eftir að hafa yfirgefið heit hreiður of snemma.