Hita­bylgja gengur nú yfir megin­land Evrópu og má í bæði Frakk­landi og Þýska­landi búast við hátt í 35 gráðu hita í dag sem verður meiri seinna í vikunni og nær há­marki annað hvort á fimmtu­dag eða föstu­dag. Í Frakk­landi, Þýska­landi, Sviss og Belgíu gætu hita­met í júní verið slegin á næstu dögum. Í Frakk­landi er sér­stak­lega búið að vekja at­hygli á hita­bylgjunni og varað við því að hún gæti orðið eitt­hvað í líkingu við hita­bylgjuna sem gekk yfir Frakk­land fyrir 16 árum, í ágúst árið 2003. Þá létust alls um 15 þúsund manns. Þá var hita­metið slegið þann 12. ágúst þegar hita­stig náði alls 44,1 gráðum á selsíus.

Talið er að í vikunni verði norður­hluti Frakk­lands, þar með talið París, fyrir mestum á­hrifum. Þar hefur verið sett af stað þriðja stigs við­vörunar­á­ætlun vegna mikils hita. Aldrei hefur verið sett á fjórða stig, sem er það hæsta. Sem hluti af á­ætluninni er að setja upp allt að 900 „kalda staði“ þar sem hita­stig er lægra en á nær­liggjandi götum, svo sem í al­mennings­görðum, al­mennings­rými sem eru með loft­kælingu og svæði þar sem gos­brunnar og móðu­vélar [e. Mist machines] hafa verið settar tíma­bundið upp.

Auk auk þess verða al­mennings­sund­laugar opnar lengur en vana­lega. Þá verður vatni dreift til fólks og að­gerða­á­ætlun hefur verið komið af stað fyrir fólk í við­kvæmri stöðu, eins og aldraðra. Vegna mikils raka í loftinu mun fólki lík­lega líða eins og 40 gráður séu nærri 47 gráðum.

Veður­stofa Frakk­land varar við því að hita­stig mun lík­lega ekki lækka fyrr en næstu helgi. Ekki er búist við því að hita­stig fari neðar en 20 gráður, þar með talið á nóttunni. Veður­stofan hefur varað við því að á­standið verði verra í stór­borgum en í dreif­býli.

Fram kemur í um­fjöllun breska ríkis­út­varpsins að veður­kerfi yfir At­lants­hafinu skapi hlýtt and­rúms­loft í álfunni. Heita loftið kemur að mestu frá norður-Afríku og Spáni, sem hækkar hita­stigið í allri álfunni.

Á Spáni hefur einnig verið spáð gífur­legum hita víða, allt að 40 til 42 stiga hita. Í Þýska­landi er búist við því að hita­stig verði í kringum 35 til 38 gráður í Ber­lín, Ham­borg, Frankfurt.