„Já, nú eru spennandi hlutir að gerast,“ segir Sigurður Þ. Ragnars­son, betur þekktur sem Siggi Stormur, um veðrið næstu daga. Hita­tölur haf ekki verið mjög háar hér á landi það sem af er sumri en líkur eru á að það breytist eftir helgi.

Veður­spár gera ráð fyrir miklum hlýindum norðan heiða eftir helgi og má vænta þess að hitinn fari í allt að 23 gráður í Ás­byrgi á mánu­dag. Sunnan heiða verður sæmi­lega milt þó út­lit sé fyrir ein­hverja vætu þar.

20 stig eða meira

„Þrýstifarið á At­lants­hafi er að teiknast þannig upp að bæði lægð og hæð leggjast á eitt við að flytja til okkar mjög ein­dreginn hlýindi úr suðri og gæti hiti farið í 20 stig eða hærra á Norð­austur­landi eftir helgi og sem dvelja muni í ein­hverja daga“ segir Sigurður við Frétta­blaðið.

Hann segir að ef þessi staða hefði verið í kortunum þegar hita­bylgjan stóð sem hæst í Evrópu í sumar hefðum við fengið drjúgan skerf af henni til okkar.

„Það má alveg kalla þetta hita­bylgju sem ætlar sér að mjaka sér yfir landið og vera að vel fram í næstu viku.“

Gott veður víðast hvar

Sigurður segir að miðað við ítrustu hita­reikninga gæti hiti á stöðum eins og Ás­byrgi farið í 22-23 gráður á mánu­dag eða þriðju­dag, jafn­vel báða dagana.

„Þó veðrið um helgina verði afar gott víðast hvar þá skella þessi miklu hlýindi ekki á fyrr en upp úr helginni og það er svo­lítið gaman að það skuli gerast 29. ágúst, því þá er Höfuð­dagur og veður­hjá­trúin segir að á Höfuð­degi verði breytingar á veðri frá því sem verið hefur og sem standa muni í 20 daga. Ég get nú ekki lofað þessu í 20 daga en sjáum hvað setur,“ segir Siggi og bætir við að við séum raunar að tala um mjög ein­dregin og góð hlýindi um allt land þó við séum að dansa yfir 20°C línunni á Norð­austur­landi.

En Sigurður, hversu góðar líkur eru á að þetta standist?

„Mjög góðar. Þó þetta eigi eftir að þroskast og þróast þá ber reikni­líkönum saman um það sem koma skal. Það eykur trú­verðug­leikann. Það verður samt að geta þess að þegar svona hlýindi eru metin, þá skoða veður­fræðingar hitann í há­loftunum, bæði í um það bil 1.500 metra hæð og 5 kíló­metra hæð. Þar sjást þessi hlýindi en þá er að­eins eitt vanda­mál eftir, og það er að þetta hlýja loft komist niður til yfir­borðs. Mjög hægur vindur hjálpar ekki í þeim efnum, heldur að loftið blási yfir fjall­lendi og opni þannig leið fyrir hlýja loftið að streyma niður hlé­megin fjalla. Þetta eru suð­lægir vindar sem þessu fylgja og því er líkurnar mestar og bestar fyrir norðan­vert landið.“

Hlýja loftið streymir til okkar eftir helgi.