„Þessi ákvörðun kemur á óvart, fyrst að það er Svandís Svavarsdóttir sem er í embætti matvælaráðherra. Svandís kemur úr VG og ég veit ekki betur en að í stefnu VG sé lagt til bann við hvalveiðum. Svo finnst mér mjög skrýtið að þetta sé nefndin sem hún sendir á þessa ráðstefnu,“ segir Valgerður Árnadóttir, varaþingmaður Pírata og formaður Samtaka Grænkera á Íslandi, aðspurð út í ákvörðun Matvælaráðuneytisins að sendinefnd Íslands myndi sniðganga atkvæðagreiðslu um griðarstaði hvala í Suður-Atlantshafi og koma með því í veg fyrir að hægt væri að úrskurða í málinu.

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sinn sem þessi tillaga um griðarsvæði hvala er lögð fram og ekki í fyrsta skiptið sem Íslendingar hafa sniðgengið þessa atkvæðagreiðslu og komið í veg fyrir ákvarðanir. Það kom vissulega á óvart að Svandís skyldi taka þessa ákvörðun. Það kom mér ekki á óvart þegar þessi stefnu var haldið þegar fyrri ráðherrar voru voru í embætti.“

Valgerður gefur lítið fyrir útskýringar Matvælaráðuneytisins.

„Já, ég gef lítið fyrir þessar útskýringar. Þetta eru tilraunir til að réttlæta þessa vonda ákvörðun á einhvern hátt. Mér finnst þetta léleg afsökun og tek ekki mikið mark á henni.“

Valgerður gerir ráð fyrir að óska eftir útskýringum á ákvörðun Matvælaráðuneytisins.

„Ég hugsa að flokksbróðir minn, Andrés Ingi, eigi eftir að spurja út í þetta. Hann hefur verið mjög ötull fyrir því að spyrjast fyrir og þrýsta á að banna hvalveiðar við Íslandsstrendur eins og ég,“ segir Valgerður og bendir á að það hefði um leið verið tvískinnungur ef Ísland hefði kosið með tillögunni.

„Brasilía er að leggja þetta til og þessi tillaga kemur okkur í raun ekkert við, en það er ákveðinn tvískinnungur ef við styðjum bann við hvalveiðum í Suður-Atlantshafi getum við ekki réttlætt hvalveiðar hjá okkur.“

Hún furðar sig um leið á skipun nefndarinnar.

„Svo finnst mér skrýtið hvernig þessi nefnd er skipuð. Mér finnst mjög skrýtið að Kristján Loftsson sé sendur út, þar sem hann er ekki að vinna fyrir neina ríkisstofnun heldur að stunda hvalveiðar. Ég furða mig að hann sé þarna á okkar vegum.“