Banda­ríski plötu­snúðurinn, rapparinn og tón­listar­fram­leið­andinn Af­rika Bam­ba­ataa hefur verið kærður fyrir kyn­ferðis­of­beldi gagn­vart barni.

Ó­nafn­greindur maður, sem kallaður er John Doe í máls­skjölunum í New York, hefur á­sakað hip-hop frum­kvöðullinn um mis­notkun á fjögurra ára tíma­bili snemma á 10. ára­tug síðustu aldar, frá því maðurinn var tólf ára gamall. Hann segir Bam­ba­ataa hafa í­trekað mis­notað sig og tekið hann á staði þar sem hann var mis­notaður af öðrum karl­mönnum.

Meðal þess sem maðurinn á­sakaði Bam­ba­ataa um er líkams­á­rás og víta­verð van­ræksla sem hann segir hafa leitt til líkam­legra á­verka, þung­lyndis og al­var­legra og lang­varandi til­finninga­legrar þjáningar. Hann óskar eftir skaða­bótum og réttar­höldum með kvið­dómi.

Bam­ba­ataa, sem heitir réttu nafni Lance Taylor, er talinn einn af frum­kvöðlum hip-hop tón­listar í Banda­ríkjunum. Hann var áður á­sakaður um barna­níð árið 2016 sem hann þver­tók fyrir að hafa framið.

„Ég hef aldrei mis­notað neinn,“ sagði hann í sjón­varps­við­tali árið 2016 og vísaði öllum á­sökunum á bug.

Baam­ba­ata er stofnandi hip-hop sam­takanna Uni­ver­sal Zulu Nation en sagði af sér sem for­maður þeirra í kjöl­far á­sakananna árið 2016. Lög­sókn Doe beinist einnig gegn sam­tökunum sem eru á­sökuð um að hafa veitt Bam­ba­ataa að­gang að börnum.

Full­trúar Uni­ver­sal Zulu Nation sögðu í yfir­lýsingu í kjöl­far lög­sóknarinnar:

„Ekkert hefur breyst síðan 2016 þegar þessar ára­tuga­gömlu á­sakanir komu fyrst upp á yfir­borðið. Þetta er per­sónu­legt mál fyrir Af­rika Bam­ba­ataa og lög­menn hans að kljást við.“

Á­sakanirnar koma í kjöl­far nýrrar breytingar á ríkis­lögum New York sem gera þol­endum kyn­ferðis­of­beldis, sem voru undir lög­aldri þegar brotið átti sér stað, kleift að kæra það þrátt fyrir að brotin séu fyrnd.