Heimir Már Péturs­son, frétta­maður og mót­fram­bjóðandi Sig­ríðar Daggar Auðuns­dóttur í for­manns­kjöri Blaða­manna­fé­lags Ís­lands, segist hafa heyrt fyrst í dag af af­skiptum hóps á vegum Sam­herja til að hafa á­hrif á for­manns­kjörið sem fór fram fyrir skemmstu.

Kjarninn fjallaði um málið á vef sínum í morgun. Þar kom fram að hópurinn hafi ætlað að hafa á­hrif á kjörið með þeim hætti að fleiri myndu kjósa Heimi Má en Sig­ríði Dögg sem er starfs­maður RÚV.

Heimir segir í yfir­lýsingu sem hann birti á Face­book-síðu sinni nú síð­degis að ef þetta er rétt þá for­dæmir hann til­raunir Sam­herja eða annarra utan Blaða­manna­fé­lagsins til að hafa á­hrif á innra starf þess.

„Ég háði litla sem enga kosninga­bar­áttu fyrir kjörið fyrir utan form­legan fram­boðs­fund fé­lagsins sem streymt var til fé­lags­manna. Ég hafði ekki sam­band við nokkurn fé­laga í að­draganda kjörsins til að óska eftir stuðningi við mig né til að hvetja fólk til að kjósa ekki Sig­ríði Dögg Auðuns­dóttur. Ég sendi hins vegar nokkrum tugum fé­laga skila­boð á loka­degi kosninganna til að minna á hve­nær kosningu lyki. Annað ekki,“ segir Heimir Már.

Hann segist vita til þess að nokkrir sam­starfs­menn hans, sem hafi viljað honum vel, hafi haft sam­band við nokkra vini sína og fé­laga á öðrum miðlum til að mæla með honum.

„Enginn, ekki nokkur maður, sem tengist Sam­herja hafði sam­band við mig til að bjóða fram stuðning sinn. Ef þeir hefðu gert það hefði ég sagt þeim sömu, ekki svo vin­sam­lega, að láta af öllum slíkum af­skiptum. Ef ein­hver í slag­togi við Sam­herja hefur beitt sér till að fá stuðning við fram­boð mitt, hefur það alveg örugg­lega ekki gagnast mér. Þvert á móti,“ segir hann.

Heimir Már bendir jafn­framt á að Blaða­manna­fé­lag Ís­lands sé ekki fjöl­mennt fé­lag. Telur hann að fé­lags­menn þekki flestir nægi­lega vel til hans til að geta tekið af­stöðu til þess hvort hann væri heppi­legur til for­ystu.

„Ég bauð mig fram til að efla fé­lagið í sam­skiptum þess við út­gef­endur og um­heiminn al­mennt og til að verja þau grund­vallar­gildi sem fé­lagið byggir á og koma fram í lögum þess og siða­reglum. Ef rétt er að Sam­herji og fólk á hans vegum hafi reynt að hafa á­hrif á úr­slit for­manns­kjörs í BÍ er það þeim hinum sömu til ævarandi skammar og minnkunar.“