Karlmaður á þrítugsaldri, sem grunaður er um innflutning á rúmlega fimm þúsund Oxycontin töflum, hefur verið sleppt úr gæsluvarðhaldi eftir að hafa setið þar í viku.

Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á miðlægri rannsóknardeild lögreglu, í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

„Hinum grunaða hefur verið sleppt,“ segir Grímur en hann segir að rannsókn miði vel.

Lögreglan handtók tvo karlmenn í tengslum við málið í síðustu viku. Annar þeirra var úrskurðaður í gæsluvarðhald og var honum sleppt úr haldi í dag.

Málið má rekja til þess þegar tollurinn fann fimm þúsund 80 mg töflur af OxyContin sem bárust til landsins með pósti.