„Ég eyði flestum dögum inni í skólunum að tala við hinsegin krakka og það eru enn þá ótrúlegar sögur sem maður heyrir,“ segir Tótla I. Sæmundsdóttir, fræðslustýra Samtakanna ‘78.

Tótla ætlaði í dag að halda hádegisfyrirlestur á vegum jafnréttisnefndar Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og kynna niðurstöður könnunar um líðan hinsegin ungmenna í skólum og ræða hvað sé hægt sé að gera til að bæta ástandið. Hún var hins vegar sett í sóttkví síðdegis í gær og verður fyrirlesturinn því fluttur síðar.

Niðurstöður könnunarinnar, sem gerð var af Samtökunum ‘78 í samstarfi við bandarísku samtökin GLSEN og Columbia-háskóla, sýna að 33 prósent þátttakenda upplifa óöryggi í skóla vegna kynhneigðar. Þátttakendur voru hinsegin ungmenni frá þrettán ára aldri. Um fimm prósent sögðust hafa orðið fyrir árásum innan skólans. 28 prósent sögðust hafa heyrt fordómafull ummæli frá starfsmönnum skólans.

„Niðurstöðurnar sýna einnig að ef krakkarnir upplifa það að starfsfólk skólans sé styðjandi breyti það tilfinningu nemenda fyrir skólanum, þannig upplifi þau sig tilheyra skólasamfélaginu,“ segir Tótla aðspurð hvað sé til ráða. „Það sést til dæmis á því að fjarvistum fækkar.“

Annað sem skipti miklu máli segir Tótla vera afskipti kennara og starfsfólks skóla af hómófóbískum ummælum. Um 32 prósent hinsegin nemenda höfðu verið áreitt munnlega vegna kynhneigðar samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.

„Um leið og þau upplifa það að kennarar og starfsfólk grípi inn í komi til hómófóbískrar umræðu líður þeim betur.“

Þá segir Tótla að námsefnið geti einnig haft mikil áhrif á upplifun hinsegin nemenda í skólanum. „Þau eru vön því að það sé ekki talað um þeirra menningu og veruleika í námsefninu, hann endurspeglast ekki í skólakerfinu, þau tala mikið um að það vanti námsefni sem endurspeglar hinseginveruleika.“

Sem fræðslustýra Samtakanna ‘78 ver Tótla miklum tíma með nemendum og fer með fræðslu um hinseginleika inn í skóla landsins en hún segir jafn mikilvægt að fræða kennara og nemendur.

„Ég held að það sé ekkert minna mikilvægt að setjast niður með kennurunum og starfsfólki skólanna til að þau geti svo haldið áfram,“ segir hún. „Það að ég komi inn í kannski klukkutíma á önn hefur áhrif en það að hafa virkt starfsfólk í skólanum sem tekur á þessum málum, er styðjandi og heldur áfram er aðalatriðið.“

Fyrirlestur Tótlu verður opinn í beinu streymi á vef Menntavísindaviðs.