Ísland trónir nú á toppi lista gagnagrunns Equaldex yfir ríki heimsins eftir réttindum hins­egin fólks. Ísland fær þar heildareinkunnina 90 af 100, sem er meðaltal annars vegar af lagalegu jafnrétti, sem er metið 94 af 100, og af almenningsáliti, sem er metið 86 af 100.

Í seinni efnisflokknum er Ísland með hæstu einkunnina á listanum. Í hinum fyrri er Ísland hins vegar á eftir nokkrum löndum, þar á meðal þremur sem fá fullkomna hundrað stiga einkunn, það er Kanada, Úrúgvæ og Brasilíu.

Ástæða þess að Ísland telst ekki hafa tryggt hinsegin fólki fullkomið lagalegt jafnrétti samkvæmt mælikvarða gagnagrunnsins er tvíþætt.

Annars vegar er það vegna þess að fyrirvarar eru settir á rétt samkynhneigðra karlmanna til þess að gefa blóð. Hins vegar er það vegna þess að á Íslandi er ekkert lagalegt bann gegn svokölluðum bælingarmeðferðum (e. conversion therapy), sem felast í því að reyna að bæla niður og breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu fólks.

Frumvarp um breytingu á hegningarlögum til þess að banna bælingarmeðferðir var raunar lagt fram á Alþingi í janúar síðastliðinn.

Hanna Katrín Friðriksson, þingkona Viðreisnar, var flutningsmaður frumvarpsins og var það stutt af ellefu þingmönnum. Málið hefur enn ekki verið sett á dagskrá þingsins eða tekið til meðferðar að öðru leyti en Hanna Katrín hyggst leggja það strax aftur fram þegar þing kemur saman á ný.

„Þróunin sem hefur verið á heimsvísu síðan ég lagði frumvarpið fram sýnir að þetta er mikilvægara mál en það virtist þá,“ segir Hanna. „Helstu mótmælin sem ég heyrði þá fólust í því að svona bann væri óþarfi. Það held ég að okkur hafi tekist að hrekja því dæmin sýna að þetta hefur viðgengist – kannski ekki ýktasta ofbeldið, en að minnsta kosti andleg þvingun. Því miður hefur þróunin verið þannig í heiminum að ég geri ráð fyrir að röddum þeirra sem telja þetta óþarfa hafi fækkað.“

Áætlað er að hömlum við blóðgjöf samkynhneigðra verði aflétt í ár eða á næsta ári í samræmi við þingsályktun um aðgerðaráætlun í málefnum hinsegin fólks sem var samþykkt í júní.

Neðsta landið á lista Equaldex er Afganistan, sem fær heildareinkunnina 1 af 100. Einkunn fyrir lagalegt jafnrétti er þar 0 og einkunn fyrir almenningsálit er 2. Jafnvel áður en Talíbanar komust aftur til valda í landinu í fyrra hafði verið þrengt að réttindum hinsegin fólks með breytingum á hegningarlögum árið 2017 sem gerðu kynferðissambönd samkynhneigðra refsiverð.

Staðan hefur þó versnað til muna eftir valdatöku Talíbana, sem hafa staðið í kerfisbundnum ofsóknum og pyntingum á hinsegin fólki. Í skýrslu sem Mannréttindavaktin gaf út í byrjun ársins voru teknar saman frásagnir af götuofbeldi, hópnauðgunum og aftökum án dóms og laga síðan í ágúst í fyrra.

Næstneðsta landið á listanum er Brúnei, þar sem grýting á samkynhneigðum konum og körlum var leidd í lög með upptöku sjaría­laga í landinu árið 2019. Næstu þrjú botnsætin verma Sádi-Arabía, Jemen og Máritanía.