Dómstóll í pólska héraðinu Lublin hefur snúið við ákvörðun yfirvalda um að héraðið sé „laust við hinsegin hugmyndafræði“. Sams konar yfirlýsingu Ryki-sýslu, í Lublin, var einnig snúið við.

Um eitt hundrað héruð, sýslur og sveitarfélög í Póllandi voru yfirlýst „hinsegin-laus“ fyrir rúmum tveimur árum síðan. Einkum í suður- og austurhluta landsins þar sem hægri íhaldsöfl og kaþólska kirkjan eru sterkust. Í þessu fólst takmörkun á frelsi hinsegin fólks, meðal annars félagafrelsi og frelsi til að mynda til að halda viðburði.

Ríkisstjórnarflokkurinn Lög og réttlæti, sem er hægri popúlískur flokkur, hefur látið þessar yfirlýsingar óátaldar og í raun leynt og ljóst stutt þær.

Evrópusambandið hefur gagnrýnt þær harkalega og meðal annars haldið eftir Covid-styrkjum til þessara svæða. Þessi þrýstingur hefur valdið því að yfirvöld á mörgum þessara svæða hafa dregið yfirlýsingar sínar til baka.

Úrskurðirnir tveir sem féllu á dögunum eru ekki þeir einu. Sjö sinnum áður hafa dómstólar snúið við yfirlýsingum um að svæði séu „hinsegin-laus“. Það er umboðsmaður pólska þingsins, sem hefur það hlutverk að verja mannréttindi, sem hefur rekið málin.