Árleg hátíð hinsegin fólks hefst á morgun við hátíðlega athöfn. Stjórn Hinsegin daga mun ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra mála fyrstu renndur hinseginfánans á Skólavörðustíg í miðborg Reykjavíkur klukkan 12.

Hefð er fyrir því að mála eitthvað kennileiti borgarinnar í hinn góðkunna regnboga fána. Áður hafa tröppur Menntaskólans í Reykjavík og heimreið ráðhúss Reykjavíkurborgar prýtt hinn litríka fána, en Skólavörðustígur er málaður í annað sinn. Eftir að borgarstjórinn og stjórn daganna hafa málað hina táknrænu fyrstu gleðirendur eru gestum og gangandi frjálst að ríða á vaðið og mála Skólavörðustíginn frá gatnamótum við Bergþórsgötu og að Laugavegi.

Í tilkynningu frá stjórn Hinsegin daga segir að það sé engin tilviljun að Skólavörðustígur sé málaður í annað sinn á 40 ára afmælis ári Samtakanna '78. Segir að gatnamót Skólavörðustígs og Bergstaðastræti sé tengdari baráttu hinsegin fólks en margra grunar, en látið kyrrt að fara nánar út í þá sálma að svo stöddu. Verður fjallað nánar um tengsl gatnamótanna við sögu hinsegin fólks á Íslandi í setningarræðu formanns Hinsegin daga á morgun.

Hinsegin dagar hafa verið haldnir árlega frá árinu 1999. Í ár standa þeir yfir frá 7. til 12. ágúst og eru dagskráin fjölbreytt. Þar má nefna sögusýningu, tónleika, dragsýningu og uppistand, en í heildina eru viðburðirnir rúmlega 30 talsins. Dagarnir ná hápunkti sínum með gleðigöngunni víðfrægu og útihátíð á laugardaginn næstkomandi.

Gleðigangan fer að þessu sinni frá Hörpu að Hljómskálagarðinum, þar sem útihátíðin fer fram. Á undanförnum árum hafa 70 til 100 þúsund gestir tekið þátt í gleðinni og búast skipuleggjendur við miklum mannfjölda í ár, enda blíðviðri í kortunum.