Ungi maðurinn sem stytti sér aldur á jóladag á sjálfsvígsgát á réttargeðdeild Landspítalans var í júní ákærður fyrir að hafa orðið móður sinni að bana í Hafnarfirði.

Hvorki lögregla né ákæruvald vildu svara fyrirspurnum Fréttablaðsins um málið en aðstandandi hins látna hefur greint frá andláti hans á samfélagsmiðlum.

Maðurinn var ákærður fyrir manndráp af ásetningi og var vistaður á réttargeðdeild frá fyrstu dögum eftir handtöku hans um mánaðarmót mars og apríl.

Aðalmeðferð í málinu hefur enn ekki farið fram og þar sem ákærði er nú látinn verður að ætla að málið verði fellt niður.

Vísir greindi frá því fyrr í kvöld að ungur maður hafi framið sjálfsvíg á sólarhringsvakt á réttargeðdeild. Þar kemur fram að málið sé í rannsókn hjá lögreglu og að óháður aðili hafi verið fenginn til að fara yfir verkferla. Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfesti í samtali við Fréttablaðið að andlátið væri á borði miðlægrar rannsóknardeildar en neitaði að tjá sig nánar um málið.

Glímir þú við sjálfsvígshugsanir? Ræddu málin við sérþjálfaða ráðgjafa Rauða krossins í hjálparsímanum, 1717, eða á netspjalli Rauða krossins