Tvær konur og einn karlmaður eru í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á manndrápi á Ólafsfirði í fyrrinótt. Hinn látni var karlmaður á fimmtugsaldri. Á gamlársdag í fyrra hafði hann gengið í hjónaband með annari konunni. Hún er á fertugsaldri.

Hin konan sem sætir gæsluvarðhaldi er hálffertug. Hún er frá Ólafsfirði og býr þar nú þótt hún hafi búið annars staðar við Eyjafjörð um skeið.

Í gær greindi Fréttablaðið frá því að maðurinn sem lést og þau fjögur sem voru handtekinn væru tengd. Haft var eftir bæjarbúum í Ólafsfirði að væringar hefðu verið á hópnum fyrir voðaverkið.

Í tilkynningu frá lögreglunni á á Norðurlandi eystra sem birtist í gærmorgun kom fram að maðurinn hafi verið stunginn með eggvopni og að hann hafi látið lífið á vettvangi.

Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, vildi ekki tjá sig um málið í samtali við Fréttablaðið í dag.