Vísindamenn vonast eftir því að geta brátt skilið til fullnustu mótefnasvar líkamans gegn Covid-19. Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir á ónæmisfræðideild Landspítalans, segir rannsóknirnar hluta af „lyklakippunni“ að sigrinum gegn Covid-19, frekar en lykilinn.

Fjallað er um mótefnasvarið í grein vefmiðilsins The Atlantic. Þar er þess getið að vísindamenn geti til að mynda með nokkurri vissu metið mótefni einstaklinga sem bólusettir hafa verið gegn rauðum hundum. Rannsóknir rói öllum árum að því að setja fingurinn á mótefnasvarið gegn Covid-19.

Björn segir í samtali við Fréttablaðið að það fréttnæmasta í baráttunni gegn veirunni sem veldur Covid-19 sé rannsókn sem birtist í New England Journal of Medicine í gær. Hún sýni fram á mikið gagn bóluefna Pfizer og AstraZeneca gegn sjúkdómseinkennum sem Delta-afbrigðið veldur, þvert á niðurstöður frumrannsókna.

„Ég tek svo sem undir það að auðvitað hefði maður viljað sjá það að bóluefnin hefðu komið í veg fyrir meira smit en megin tilgangurinn með bóluefnunum er fyrst og fremst sá að koma í veg fyrir sjúkdóma, ekki endilega smit.“

Ný bylgja er hafin í faraldrinum á Íslandi og gríðarlangar biðraðir voru í skimun á Suðurlandsbraut í gær.
Fréttablaðið/Urður Ýrr

Björn segir rannsóknina sýna það ótvírætt, auk annarra rannsókna frá Bretlandi og Bandaríkjunum, að bólusettir smiti margfalt minna en óbólusettir.

„En það útilokar hins vegar ekki að í ákveðnum aðstæðum eins og í margmenni og ef fólk er að öskra mikið, eða syngja, upp í hvort annað að þá eykst dreifingin á veirunni og hún getur smitað fleiri, þannig þeir sem eru bólusettir og þó þeir hafi lítið magn, geta smitað aðra í svoleiðis aðstæðum,“ segir Björn.

„En þessi rannsókn sýnir fram á það að munurinn er minni heldur en við héldum fyrst,“ segir hann og vísar til virkni bóluefnanna gegn Delta. „Þannig að núna er virknin 94 prósent ef þú ert með Pfizer, fullbólusettur, gegn sjúkdómseinkennum. Ekki af því að smitast, heldur að fá Covid-sjúkdóminn. En 88 prósent fyrir Delta-afbrigðinu. Þannig að munurinn er ekki nema 6 prósent. Það eru sláandi niðurstöður.“

Björn segir þetta töluvert betri niðurstöður en vísindamenn hafi þorað að vona vegna Delta. Aðspurður út í leitina að hinu rétta mótefnasvari Covid-19, sem þá getur nýst til að breyta bóluefnum með litlum fyrirvara eins og gert er með flensusprautu ár hvert, segir Björn leitina enn standa yfir.

Lyklakippa að sigrinum gegn Covid en ekki lykill

„Það er hinn heilagi kaleikur í þessu,“ segir Björn. „Menn eru búnir að vera að leita að því í ansi langan tíma,“ segir hann en þetta er meðal annars rannsakað í þeim sem smitast hafa af veirunni af ónæmisfræðideild Landspítalans.

„Svo eru stórar rannsóknir í gangi núna á bólusettum til að bera saman þessa þætti. Það er að segja: Eru einhver ákveðin mörk eða tegund ónæmissvars sem segir til um það hversu mikla vernd þú hefur gegn sjúkdómnum, ef þú lendir í smiti?“ útskýrir Björn.

Veirufræðideild Landspítalans að störfum
fréttablaðið/sigtryggur ari

„Það eru byrjaðar að detta inn ein og ein lítil grein, þar sem það eru byrjaðar að koma fram vísbendingar um eitthvað af þessu, þannig að við vitum í dag að það eru ákveðnar tegundir af mótefnum í blóði fólks, svokölluð hlutleysandi mótefni, eða neutralising antibodies, sem þeir eru farnir að kalla á enskunni „neauts,“ að það eru þau sem skipta máli,“ segir Björn.

Þetta hafi verið vitað í meira en ár núna.

„Og við erum hægt og rólega að læra meira um það hver af þeim eru mikilvægust. Þannig að mótefni og mótefni eru ekki það sama.“

Björn útskýrir að svo séu til mismunandi tegundir af mótefnum í blóðinu. „Þannig að þú getur verið með frumsvarið, ónæmissvarið, sem er alltaf af svokallaðri IGM-gerð, en svo þegar það kemur minni, og þess vegna er svo mikilvægt að bólusetja, og sérstaklega í endurbólusetningunni, þá erum við að styðja við það að það verði langvarandi minni í ónæmiskerfinu. Þá breyta þessi mótefni sér, þannig að við förum að fá svokallaða IGG-gerð eða IGA-gerð.“

Björn segir IGG-tegund mótefnis vera í blóðinu og almennt í líkamanum. „Á meðan IGA er meira á yfirborði slímhúðarinnar eins og í öndunarveginum. Og þú getur verið með svo mismunandi mótefni sem beinast gegn mismunandi svipgerð veirunnar, út af því að hún er með svo mörg andlit. Mótefnin kannski þekkja bara hluta af nefinu á meðan annað þekkir bara eyrun og svo framvegis,“ útskýrir Björn.

„Sigurinn gegn Covid er heil lyklakippa, það er ekki einhver einn lykill“

„Það sem menn eru að reyna að kortleggja er hvaða tegund af mótefni, það er að segja er það IGG eða IGA-ið og hvaða undirflokkar og sértæka mótefni, það er að segja hvort það séu þau sem þekkja nefið sem skipta máli eða er það eitthvað hlutfall þarna á milli? Þannig að það eru menn að reyna að sortera. Og við erum farin að fá meiri svör þar.“

Björn segir þetta ekki einu spurninguna. „Er það þá ákveðið magn af þessum tilteknu mótefnum sem skipta máli og er það samanlagt magn allra þessara mismunandi mótefna? Vegna þess að ónæmiskerfið er svo klárt að það býr til margar tegundir af mótefnum þegar við erum bólusett og þegar við erum sýkt. Þannig það er ekki bara einhver ein tegund. Og við þessu erum við að reyna að fá svör.“

„Þetta er gríðarlega flókið og þarna erum við svona hægt og rólega að fá betri mynd en það eru ekki komin afgerandi svör,“ segir Björn léttur í bragði.

„Við vitum það samt að þeir sem eru lágir á þessum skala, þeim virðist vera hættara að fá sýkingu heldur en þeir sem eru með mikið magn. Við vitum ekki nákvæmlega hvar mörkin eru. Það er vandinn.“

Er þá lykillinn að því að við getum sigrast á þessari veiru, og að þetta verði eins og flensusprauta þar sem við getum gert örfáar breytingar til þess að bregðast við nýjustu afbrigðum, er það að finna þessi mörk? Er þetta þá lykillinn að sigrinum á Covid?

„Sigurinn gegn Covid er heil lyklakippa, það er ekki einhver einn lykill,“ segir Björn og hlær. Hann bendir á gríðarlegan árangur af bólusetningum hér á landi. „Við sjáum það í því hvernig fjölda dauðsfalla hefur fækkað og spítalainnlögnum þó svo að nú sé búið að opna svona mikið. Við sjáum það líka hérna heima, við erum að fá fjölgun í sýkingum, að það er fólk sem er veikt en er ekki jafn lasið og það var áður. Það sýna þessar rannsóknir sem ég var að segja þér frá hérna áðan.“

T-frumurnar skipta líka máli

Björn segir glettinn að þyki mönnum þetta flókið nú, sé hægt að flækja þetta enn meira. „Af því að þetta er ekki nógu flókið: Þá eru aðrar frumur og þættir í ónæmiskerfinu sem skipta mjög miklu máli og það sem við erum ekkert byrjaðir að tala um eru frumur sem ég hef rannsakað nánast alla mína ævi, sem heita T-frumur. Þær skipta mjög miklu máli í þessu líka,“ segir Björn.

Svar T-frumnanna gegn smiti sé frumubundna svar ónæmiskerfisins sem sé jafn mikilvægt og mótefnasvarið. „Fréttaflutningurinn hefur fyrst og fremst miðast við þessi mótefnasvör en við vitum það og hellings niðurstöður sýna það að T-frumusvarið eða þetta frumubundna svar skiptir jafn miklu máli og þessi tvö svör þurfa að tala saman.“

Björn segir kostinn við bóluefnin þann að þau leiði til mjög öflugs svars á báðum vígstöðvum. Ekki bara mótefnasvars heldur líka T-frumu svarsins. „Þannig að það er það sem er nýjast í þessu, þessi styrkleiki í frumubundna svarinu, T-frumunum,“ útskýrir Björn.

„Þannig að þetta allt er verið að rannsaka, þó að fréttaflutningurinn hafi mest miðað við mótefnasvarið. En þegar ég er að tala svona almennt um varnir, þá er ég yfirleitt með báða þætti í huga, og ekki að reyna að flækja svörin of mikið.“

Hvenær lýkur þessu?

Eitt í lokin, fyrst ég er með þig á línunni, af því að nú eru mjög margir og örugglega þú líka, aðframkomnir vegna baráttunnar við þessa veiru og maður er alltaf að spyrja sig: Hvenær lýkur þessu? Hvernig sérð þú fyrir þér endalok þessa faraldurs? Með þessum rannsóknum ykkar?

„Sko, gamli lærifaðir minn, Anthony Fauci, er búinn að vera að vara heimsbyggðina við í rúm tuttugu ár, við hættunni af mismunandi sýklaafbrigðum sem eru á ferðinni, bæði nýjum afbrigðum sem geta skotið upp kollinum, eins og við erum að sjá í þessum faraldri og svo ekki síður gegn þessum fjölónæmum bakteríum sem eru hægt og rólega að breiðast út og valda gríðarlegum vanda.“

Sóttvarnarlæknir Bandaríkjanna, Anthony Fauci
Fréttablaðið/Getty

Aðvaranir Fauci, sóttvarnalæknis Bandaríkjanna, hafi því miður raungerst í Covid.

„Ég held að við séum bara að upplifa núna breyttan heim. Þannig að við þurfum að hafa varann á okkur og hegða okkur aðeins öðruvísi og af meiri skynsemi almennt. Passa almennt upp á sóttvarnir alls staðar þar sem við erum, í fjölmenni sérstaklega og lokuðum rýmum. Þetta þurfum við að tileinka okkur.“

„Ég held að við séum bara að upplifa núna breyttan heim.“

Björn segir hins vegar að góðu fréttirnar séu þær að vísindin hafi enn og aftur sannað gildi sitt með þróun bóluefnanna og samstarfi vísindamanna um heim allan. „Sem þýðir að við erum að ganga í gegnum algjörlega nýjan heim af virkni bóluefna og notkun bóluefna, þá gegn öðrum mögulegum vágestum. Ekki bara sýklum heldur líka öðrum sjúkdómum. Þessar framfarir munu hjálpa okkur í baráttunni gegn krabbameini, sjálfsofnæmissjúkdómum, ofnæmissjúkdómum og ýmsu öðru. Þannig að það er það sem er að raungerast núna frammi fyrir augum okkar, sem er algjörlega stórkostlegt.“

Björn hvetur landsmenn til að anda rólega, njóta þess að vera á Íslandi þar sem þátttaka í bólusetningu er eins og raun ber vitni. Við séum tiltölulega örugg en þurfum samt að haga okkur skynsamlega.

„Við verðum samt að haga okkur skynsamlega og forðast fjölmenni á meðan faraldurinn er ennþá á fullu erlendis. Þar er stór hluti fólks ennþá óbólusettur og á meðan staðan er þannig heldur þessi veira áfram að breiðast út og breyta sér. Þar af leiðandi þurfum við örugglega, sem ég hef talað um áður, að þá aukast líkurnar á því að við þurfum að fá endurbólusetningu með einhverjum öðrum afbrigðum alveg eins og við þurfum fyrir inflúensunni, þær aukast verulega.“

Björn minnir á að ekki megi gleyma góðu fréttunum. „Þær eru það að þessi bóluefni sem við erum að nota núna og nýjustu niðurstöðurnar sýna það ótvírætt, að þær eru að vernda okkur gegn alvarlegu formi sjúkdómsins og minnka líkurnar á smiti. Þær koma ekki í veg fyrir smit hjá öllum en minnka líkurnar á smiti og vernda okkur að langstærstu leyti fyrir alvarlegasta formi sjúkdómsins, en því miður ekki fyrir alla.“

Manni finnst eins og þetta sé tvíeggjað sverð. Út af bóluefnunum og hvað okkur gengur vel, eru ansi margir sem eru búnir að því og spyrja: Af hverju erum við að herða aðgerðir ef við erum varin hvort sem er. Óttast vísindamenn stökkbreytingu í bólusettum einstaklingum vegna dreifingar veirunnar, er það ástæðan?

„Ja, ég held að það sé kannski síður í óbólusetta hópnum, þar grasserar hún og heldur áfram vegna þess að hún tilheyrir þessum flokki RNA-vírusa eins og inflúensan. Þeir eru löngu vel þekktir að því að stökkbreyta sér stöðugt og meira en það, alveg eins og kórónuvírusar, Sars-COV-2 er alveg hrikalega sniðug að verja sig fyrir árásum ónæmiskerfisins.

Þannig að hún reynir að búa til efni sem slökkva á því og koma í veg fyrir að þessi mótefni geti virkað og jafnvel að þau séu yfirhöfuð framleidd af ónæmiskerfinu. Hún er ótrúlega sniðug og við erum að berjast á mörgum vígstöðvum.

En lykillinn er kannski þessi: Fólk á að njóta þess að vera fullbólusett en við megum ekki gleyma því samt að þó að vörnin sé núna 88 prósent gegn Delta afbrigðinu, hjá fullbólusettum gegn því að fá alvarlegan sjúkdóm, þá þýðir það að það eru 12 af hverjum 100 sem fá sjúkdóminn. Það eru þá 120 af hverjum 1.000, þannig að þetta er ekki lítil tala. En þetta er samt verulega góður árangur og miðað við önnur bóluefni.“