Þessi góði árangur SSC Tuatara segir samt ekki alla söguna, því að í síðustu ferðinni náði bíllinn 533 km hraða, sem er mesti hraði sem náðst hefur á þjóðvegi. Var metið sett á 12 kílómetra kaf la á Route 160 í Nevada eyðimörkinni og eins og búast mátti við var öllum veginum lokað vegna þess. Dómarar frá heimsmetabók Guinness voru á staðnum til að sannreyna metið, en bíllinn þurfti að aka einu sinni í hvora átt með innan við klukkustundar millibili. Var það meðaltal ferðanna tveggja sem ræður endanlegri tölu. Að sögn Olivers Webb, ökumanns bílsins, átti hann enn nokkuð inni. „Þegar ég náði mesta hraðanum í seinni ferðinni jók hann hraðann um 30 km á síðustu fimm sekúndunum. Ef hliðarvindur hefði ekki verið til staðar hefðum við getað farið mun hraðar,“ sagði Webb eftir ferðina góðu. Met þetta kemur tíu árum eftir að SSC Ultimate Areo setti hraðamet. Tuatara bíllinn er eins og hver annar Tuatara í sýningarsölum, nema að hann er keyrður á E85 eldsneyti. Vélin er 5,9 lítra V8 vél með tveimur forþjöppum og getur skilað allt að 1.750 hestöf lum. Á hefðbundnu 92 oktana bensíni skilar hún 1.350 hestöf lum. Loftmótstaða bílsins gerði sitt til að ná þessu meti, en stuðullinn er aðeins 0,279 cd.