Þeir tveir ein­staklingar sem greinst hafa með CO­VID-19 utan sótt­kvíar undan­farna daga tengjast ekki að öðru leyti en að búa á sömu hæð í sama stiga­gangi fjöl­býlis­húss á höfuð­borgar­svæðinu.

Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir segir að þetta sýni hvað veiran þurfi í raun lítið til að dreifast. Ó­víst sé hvort smitið tengist hand­riði eða jafn­vel lyftu­hnappi.

Þetta kom fram á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna­deildar ríkis­lög­reglu­stjóra vegna smitanna sem greinst hafa undan­farna daga.

Bæði smitin tengjast ein­stak­lingi sem kom hingað til lands þann 26. febrúar síðast­liðinn og hafði fram­vísað nei­kvæðu PCR-prófi á landa­mærunum. Fyrri sýna­taka sem hann gekkst undir reyndist einnig nei­kvæð en niður­staða seinni skimunar, fimm dögum eftir komuna til landsins, reyndist já­kvæð.

Þór­ólfur sagði að ekki væri að sjá í rakningu að við­komandi hafi brotið ein­hverjar reglur sem sýni vel hversu smitandi veiran getur verið. Tveir af þessum þremur sem greinst hafa með veiruna eru með breska af­brigði hennar, sem talið er vera meira smitandi en fyrri af­brigði, en beðið er niður­stöðu rað­greiningar þess þriðja.

Þór­ólfur sagði að mjög hart yrði tekið á þessum smitum og nú þegar hefði mikil rakningar­vinna farið fram um helgina. Þá hefðu mörg sýni verið tekin og nokkrir tugir ein­stak­linga settir í sótt­kví. Næstu tveir eða þrír dagar muni skera úr um fram­haldið, meðal annars hvort þær af­léttingar innan­lands sem ráðist hefur verið í að undan­förnu verði endur­skoðaðar.

Að­spurður hvort til­efni væri til að ætla að smitin nú væru upp­hafið að nýrri bylgju sagði Þór­ólfur ó­tíma­bært að spá í það. „Það eru engar for­sendur til að vera svart­sýnn eða bjart­sýnn,“ sagði hann og bætti við að sjá þyrfti hvað kæmi út úr þeim skimunum sem farið hafa fram um helgina og fyrir­hugaðar eru á morgun.