Einstaklingarnir fimm, sem lentu í hörðum árekstri tveggja bifreiða á Hnífsdalsvegi, milli Hnífsdals og Ísafjarðar síðastliðið föstudagskvöld, eru öll úr lífshættu. Þetta staðfestir Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Vestfjörðum.
Þrír eru inniliggjandi á Landspítalanum og tveir á sjúkrahúsinu á Ísafirði.
Rýnifundur viðbragðsaðila var haldinn síðdegis í gær, og segir Hlynur alla þá sem mættu á fundinn hafa verið sammála um að samhæfing hafi verið með besta móti.
„Við fórum yfir aðgerðirnar í gær og það voru allir sammála um að vel hafi til tekist í þessu verkefni,“ segir Hlynur.
„En það sem skiptir öllu máli er að allir eru úr lífshættu,“ bætir hann við.
Á áttunda tug manna komu að aðgerðunum á föstudag, þar af fimmtíu á vettvangi og við vettvang. Málið er nú í rannsókn.