Mál lyfja­salanna tveggja sem eru til rann­sóknar vegna gruns um ó­lög­lega af­greiðslu lyf­seðil­skyldra lyfja, sinntu báðir eftirliti með lyfjamálum á Heil­brigðis­stofnun Suður­nesja. Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins bar lyf­sölu­leyfis­hafi Lyf­salans í Glæsi­bæ á­byrgð á eftir­litinu og starfaði leyfishafi Lyfju í Reykja­nes­bæ fyrir hann.

Rúna Hauks­dóttir Hvann­berg, for­stjóri Lyfja­stofnunar, sagði í sam­tali við Frétta­blaðið að stofnunin væri ekki viss um að lyfsali Lyfju hefði starfað fyrir leyfishafa Lyfsalans, en staðfesti að hann hafi sinnt af­leysingum við það eftir­lit.

Málin rannsökuð sem aðskilin

Að sögn Rúnu var á­kveðið að fara í út­tekt hjá Lyf­salanum í Glæsi­bæ eftir að mál Lyfju kom upp. Það hafi verið gert þar sem gögn hafi bent til þess að Lyfsalinn í Glæsibæ hefði aðkomu að málinu. Málin séu samt sem áður rann­sökuð í sitt­hvoru lagi innan stofnunarinnar.

„Við förum í út­tekt í Glæsi­bæ í fram­haldi af út­tekt í Lyfju, en þetta eru að­skilin mál hjá okkur,“ segir Rúna.

Hún gat hvorki veitt upp­lýsingar um hvers konar lyf hafi verið af­greidd ó­lög­lega, né hvort grunur léki á að brotin hafi verið framin í gróða­skyni.

Mál Lyfsalans ekki vísað til Lögreglu

Hvorugur ein­stak­lingurinn heldur enn utan um lyf­sölu­leyfi apó­tekanna og sam­kvæmt frétt Mbl.is, sem greindi fyrst frá því að Lyfja­stofnun hefði málin til skoðunar, hefur ein­stak­lingnum sem starfaði fyrir Lyfju verið sagt upp. Fyrr­verandi lyf­sölu­leyfis­hafi Lyf­salans í Glæsi­bæ er hins vegar annar eig­enda fyrir­tækisins.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá hefur máli Lyfju í Reykja­nes­bæ verið vísað til Lög­reglunnar á Suður­nesjum. Rúna vissi ekki hvort að mál Lyf­salans í Glæsi­bæ væri komið inn á borð lög­reglu, en stofnunin hefði ekki vísað því þangað enn sem komið er.

Frétta­blaðið hefur ekki upp­lýsingar um það hvort að Heil­brigðis­stofnun Suður­nesja eða starfs­menn hennar séu til rann­sóknar hjá lög­reglunni. Í frétt RÚV í gær sagðist Kol­beinn Guð­munds­son, yfir­læknir Lyfja­stofnunar, ekki vilja tjá sig um það hvort að ein­hver læknir tengdist rann­sókn stofnunarinnar.

Ekki náðist í for­stjóra Heil­brigðis­stofnunar Suður­nesja við vinnslu fréttarinnar.

Rann­sóknar­deild Lög­reglunnar á Suður­nesjum gat ekki gefið neinar upp­lýsingar um rann­sókn málsins, aðrar en þær að rann­sóknin væri á við­kvæmu stigi og ekki væri neinna fregna að vænta fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku.