Mika -Biskupstungur

Hjónin Michał and Bożena Józefik reka veitingastaðin Mika í Reykholti þar sem boðið er upp á ljúffenga humarrétti ásamt kjöt- og grænmetisréttum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru pítsurnar á Mika með þeim betri á landinu og ekki er sparað til við áleggið.

Það sem gerir Mika sérstaklega spennandi er að þar geta gestir gætt sér á handgerðu súkkulaði sem framleitt er á staðnum. Andrúmsloftið er heimilislegt og umhverfið fallegt.

Mika
Mynd/Facebook

Baccalá – Eyjafirði

Á Hauganesi í Eyjafirði má finna veitingastaðinn Baccalá Bar. Á staðnum, sem er í um 25 mínútna akstursfjarlægð frá Akureyri, geta gestir notið útsýnisins yfir fjörðinn á meðan þeir njóta máltíðar á staðnum sem er í líki víkingaskips.

Á fjölbreyttum matseðli má finna salfisk verkaðan á gamla mátann ásamt fjölda annarra fiskrétta, hamborgara, pitsur, vöfflur og ís. Mælt er með því að fólk bóki borð fyrir fram.

Baccalá Bar
Mynd/Facebook

Narfeyrarstofa – Stykkishólmi

Narfeyrarhús í Stykkishólmi var byggt árið 1908 og hýsir nú Narfeyrarstofu þar sem vatnið er ekki sótt langt yfir lækinn því hráefnin sem notast er við eru flest úr næsta nágrenni.

Á matseðlinum er fjölbreytt úrval fiskrétta, ásamt folaldalundum, falafel og hamborgurum. Nýr forréttur á matseðli er burrata-ostur sem vakið hefur mikla ánægju gesta.

Narfeyrarstofa
Mynd/Facebook

Úps – Höfn

Á veitinga- og brugghúsinu Úps á Höfn í Hornafirði er virkilega girnilegur matseðill og er vegan úrvalið sérlega gott. Staðurinn er fjölskyldurekinn og ekki einungis rekur fjölskyldan veitingastaðinn heldur brugga þau sinn eigin bjór og framleiða sinn eigin borðbúnað úr leir.

Á matseðlinum má finna Burrito, Tostada og Nachos ásamt Edamame baunum og kjúklingavængjum svo dæmi séu tekin. Bjórúrvalið má svo sjá á krítartöflu við barinn. Úps er staðsettur á Hafnarbraut 34.

ÚPS
Mynd/Facebook

Flak – Patreksfirði

Flak er listhneigt samkomuhús og pöbb í gömlu verbúðinni á Patreksfirði. Matseðillinn er einfaldur en mikið er lagt upp úr gæðum og veglegheitum. Fiskisúpa úr fersku fiskmeti er flaggskip staðarins og laufa- & lemongrasssúpan er virkilega góð, ekki spillir fyrir að hún er vegan.

Á Flaki eru oft skemmtilegir viðburðir og í kvöld spilar Teitur Magnússon hin ýmsu lög af ferlinum og frítt er inn. Vert er að taka fram að bjórúrvalið á pöbbnum er afar fjölbreytt.

Flak
Mynd/Facebook