Bandaríski blaðamaðurinn Andrea Brown stefnir á að heimsækja Costco-verslanir í öllum löndum þar sem þær eru. Hún kom hingað til Íslands skömmu áður en COVID-19 faraldurinn skall á og heimsótti vitaskuld Costco-verslunina í Garðabæ.

Andrea er frá bænum Everett í norðurhluta Washingtonfylkis, skammt frá landamærum Kanada, og skrifar fyrir bæjarblaðið Heraldnet. En Washington er einmitt heimafylki Costco. Í sýslunni sem hún býr í búa um 700 þúsund manns og þar eru fimm Costco-verslanir og sú sjötta á leiðinni. „Þetta er hluti af lífinu hér,“ segir Andrea.

Costco-skoðun hennar hófst fyrir um fimm árum þegar hún var á ferðalagi með öðrum blaðamönnum í Suður-Kóreu. „Okkur var boðið að skoða alls kyns ríkisstofnanir og sjónvarpsstöðvar. Síðan vorum við spurð hvert við vildum fara og ég sagði Costco!“ segir hún og hlær. „Nokkur okkar fórum og höfðum svo gaman. Þá ákvað ég að ná öllum löndum.“

Verslunin var ekki aðalástæðan fyrir því að Andrea kom hingað til Íslands með fjölskyldu sinni, heldur var það til þess að njóta þess sem landið hefur upp á að bjóða. „Fjögur úr minni fjölskyldu komu með og þau vildu ekki fara í Costco. En þau gerðu það af því að þau vissu að ég myndi ekki hætta að suða um það,“ segir hún.

Andrea segir útlitið og úrvalið nokkurn veginn sambærilegt við aðrar Costco-verslanir sem hún hefur heimsótt. Fólk gangandi um með stórar kerrur með stæðum af Kirkland-klósettpappír. Verðið sé hins vegar nokkuð hærra hér á landi, til dæmis pylsurnar sem eru tvöfalt dýrari. Þá rakst hún einnig á það að geta ekki keypt áfengi eins og annars staðar.

Þrátt fyrir að vera komin langt að keypti hún ekki mikið í versluninni. En varð þó til dæmis að kippa með Starbucks-kaffi, sem er annað stolt Washingtonfylkis. Ólíkt flestum útlendingum segist hún hafa orðið sólgin í íslenskan lakkrís en lýsið hafi valdið vonbrigðum. „Hvernig fáið þið börn til að drekka þennan óþverra?“ spyr hún á léttu nótunum.

Eins og hjá flestum hefur heimsfaraldurinn hamlað ferðaplönum hennar og skoðun fleiri Costco-búða. Hún stefnir þó á að heimsækja Costco í Bretlandi næst. Einnig að heimsækja Ísland aftur.