Hilmar Kolbeins sem er 45 ára og fjölfatlaður hefur ekki fengið viðunandi þjónustu frá Reykjavíkurborg svo mánuðum skiptir, sem dæmi hefur hann ekki verið baðaður frá því í byrjun febrúar.

Flóki Ásgeirsson, lögmaður Hilmars, segir meðferðina sem Hilmar hefur sætt af hálfu borgarinnar vera á þá leið að bregðast þurfi við. Til greina komi að leita til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna málsins.

„Ég held að það sé eitthvað sem við hljótum að skoða að Hilmar leiti réttar síns,“ segir Flóki í samtali við Fréttablaðið. Flóki bindur vonir við að Hilmar fái viðunandi þjónustu svo hann geti lifað lífi sínu við mannsæmandi aðstæður.

Spítali og elliheimili á víxl

Fréttablaðið hefur greint frá raunum Hilmars frá því í desember síðastliðinn en þá dvaldi hann á hjúkrunarheimili þrátt fyrir að eiga heimili vegna skorts á þjónustu hjá Reykjavíkurborg.

Í febrúar síðastliðinn fékk Hilmar loks að snúa aftur heim en þá hafði hann dvalið á spítala og hjúkrunarheimili á víxl í tæpt ár. Reykjavíkurborg hafði boðið Hilmari beingreiðslusamning til að ráða inn sitt eigið starfsfólk, sem hann gerði.

Eftir þriggja mánaða reynslu af beingreiðslusamningnum var ljóst að hann dugði ekki til fyrir þjónustu Hilmars og bauðst borgin til að taka yfir samninginn og úthluta honum þjónustu frá og með 1. maí sem hann þáði.

Ekki benda á mig

Á meðan Hilmar var með beingreiðslusamning kom ýmislegt upp, meðal annars var ljóst frá upphafi að upphæð samningsins dygði ekki fyrir nauðsynlegri þjónustu.

Þá hefur heimahjúkrun þurft að koma daglega til Hilmars til að skipta um sárabindi á legusárum.

Starfsfólk fyrirtækisins sem Hilmar réð vildi til að mynda ekki baða hann, sagði það ekki þeirra hlutverk og benti á heimahjúkrun.

Hilmar segir heimahjúkrun hafa neitað því og að enginn hafi viljað bera ábyrgð á þeirri þjónustu. „Ég hef ekki komist í bað síðan ég var á spítalanum sem var í byrjun febrúar. Sinnum benti á heimahjúkrun og heimahjúkrun sagði nei,“ segir Hilmar.

Sefur í hjólastólnum

Frá 30. apríl síðastliðnum hefur Hilmar sofið sitjandi í hjólastólnum sínum vegna skorts á þjónustu frá borginni og þá hefur hann þurft að leita á bráðamóttöku Landspítalans til að fá viðeigandi aðstoð.

Í upphafi vikunnar leitaði Hilmar á bráðamóttöku til að láta tæma úr þvagpoka, hann mætti um ellefu að kvöldi til og var ekki kominn heim fyrr en um sex að morgni til.

Hilmar segir að borgin beri fyrir sig undirmönnun og erfiðleika við ráðningar.

Alvarleg mannréttindabrot

Það var ekki fyrr en Flóki sendi erindi til starfsmanna Reykjavíkurborgar sem og réttindagæslumanns fatlaðs fólks í gær sem Hilmari var lofuð lágmarksþjónusta í gærkvöldi og morgun. Í erindi Flóka segir meðal annars að aðstæður Hilmars feli í sér vanvirðandi meðferð í hans garð og þar með brot á tveimur ákvæðum stjórnarskrárinnar.

„Þá eru þær að sjálfsögðu ekki í nokkru samræmi við réttindi Hilmars samkvæmt lögum nr. 38/2018 og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eða þær skyldur sem Reykjavíkurborg ber gagnvart Hilmari á þeim grundvelli,“ segir Flóki jafnframt í erindi sínu og bætir við að ábyrgðin á þeim alvarlegu mannréttindabrotum sem Hilmar lýsir hljóti að liggja einhvers staðar.

Í kjölfar erindisins barst svar frá borginni um að búið væri að tryggja Hilmari þjónustu í gærkvöldi og í morgun. Að sögn Hilmars stóðst sú þjónusta en hann segist þó ekkert vita með framhaldið.