Helena Rós Sturludóttir
Föstudagur 17. desember 2021
10.02 GMT

„Það var aldrei sagt við mig þegar ég fór út af heimilinu mínu að ég myndi ekki snúa til baka,“ segir Hilmar Kolbeins, sem er 45 ára og hefur dvalið á hjúkrunarheimili síðan í október.

Hilmar er fjölfatlaður og hefur frá árinu 2011 búið einn og notið þjónustu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu, ásamt ráðgjafarþjónustu á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Þar áður hafði Hilmar búið ásamt móður sinni, allt þar til hún lést árið 2010.

Lauk meðferð í maí

Í lok febrúar síðastliðins þurfti Hilmar að leggjast inn á Landspítala vegna meðhöndlunar legusára og gekkst þar undir aðgerð. Þeirri meðferð lauk í maí og sendi þá spítalinn beiðni um að Hilmar fengi að snúa aftur heim eins og áætlað var og óskað var eftir að heimahjúkrun tæki aftur við honum.

Þeirri beiðni var hafnað og nú, sjö mánuðum síðar, hefur Hilmar enn ekki fengið að fara aftur heim. „Ég lá á spítala í sjö mánuði, þangað til að ég gat ekki meir,“ segir Hilmar. Aðspurður af hverju beiðni hans um heimahjúkrun hafi verið hafnað, segir hann að ýmsar ástæður hafi verið gefnar, „sagan var alltaf að breytast.“

Að sögn Hilmars hafði hann margoft spurt hvenær hann fengi að fara heim. Á endanum var honum gefin sú ástæða að ekki væri pláss fyrir hann. „Þetta er mín íbúð – þetta með pláss gekk engan veginn upp. Svo komu alltaf aðrar sögur og á endanum var mér bent á lögmann.“

Hilmar í herbergi sínu á Hrafnistu þar sem hann hefur dvalið síðan í október.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Sjö mánuðir á spítala

Hilmar segir að þegar til hafi staðið að hann færi í innlögn á Landspítala vegna legusára sinna, hafi hann aldrei átt von á því að fara aldrei aftur heim. „Mér var sagt að ég yrði kannski svolítið lengi á spítalanum út af þessu sári, þetta yrðu kannski fjórar til fimm vikur. Ég pakkaði niður fötum eftir því.

„Það var aldrei sagt að ég myndi ekki snúa til baka. Það var ekki fyrr en þeir [spítalinn] fara að undirbúa útskrift hjá mér, þá er sent bréf um að þjónustu sé hætt og við tekur þessi eltingaleikur við kerfið,“ segir Hilmar.

Eftir sjö mánaða dvöl á spítalanum var tekin ákvörðun um að Hilmar færi í hvíldarinnlögn á hjúkrunarheimili í nokkrar vikur og átti hann að útskrifast þaðan 6. desember síðastliðinn.

Sú útskrift gekk ekki eftir, nokkrum sólarhringum áður átti Hilmar von á að verða sendur aftur á spítalann vegna úrræðaleysis. „Mér var gefinn kostur, að vera á hjúkrunarheimili þar sem ég hef ákveðið frelsi, eða fara aftur á spítalann.“

Því fór sem fór, dvöl hans á hjúkrunarheimilinu var framlengd til 2. janúar.

Á heimili

Aðspurður hvað tekur við þá segist Hilmar ekki vita það. „Ég er búinn að búa mig undir að fara aftur á spítalann – undirmeðvitundin segir það.“

Hilmari hefur verið boðin búseta á hjúkrunarheimili til frambúðar. Hann segir að það hafi aldrei komið til greina hjá sér að hann færi inn á hjúkrunarheimili. „Ég á heimili.“

Að sögn Hilmars er hann allt of ungur til að búa á elliheimili, „ég er bara 45 ára.“

„Mér hefur verið sagt af nokkrum aðilum að ef ég festist hérna inni, ef ég þigg varanlega vist á hjúkrunarheimili – yrði erfitt fyrir mig að komast aftur út.“

Hefur engin réttindi

Hilmar bætir við að í kjölfarið myndi hann missa öll sín réttindi. „Ég missi öll hjálpartæki, ferðaþjónustuna, sjúkraþjálfun og bifreiðastyrk. Ljótt að segja það, en þá er ég bara kominn í fangelsi.“

Að sögn Hilmars hafa samskipti við vini og fjölskyldu verið af skornum skammti í þann tíma sem hann hefur dvalið utan heimilis síns. „Hluti af mínum vinum vill ekki fara á spítala og þeim finnst ekki gaman að fara og hitta ungan vin sinn á elliheimili.“

Hilmar segist ekki hafa neitt út á hjúkrunarheimilið sjálft að setja, hann hafi rúmgott herbergi. Hins vegar sé þetta umhverfi sem henti manni á hans aldri alls ekki.

Á meðan Hilmar dvelur á hjúkrunarheimilinu í hvíldarinnlögn, hefur hann engin réttindi. „Ég get ekki leitað til félagsráðgjafa, þau mega ekki sinna mér. Ég er innan gæsalappa í hvíld og ég á ekki rétt á neinu.“

Hilmari grunar að hann þurfi að fara aftur upp á spítala eftir að hvíld hans á Hrafnistu líkur 2. janúar næst komandi.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Hilmar fær ekki að fara í sjúkraþjálfun, en fær afnot af líkamsræktar­tækjum á hjúkrunarheimilinu. Sjúkratryggingar greiða ekki fyrir einstaklinga á tveimur stöðum, á meðan þær greiða fyrir dvöl Hilmars á hjúkrunarheimilinu, fellur annað niður.

Heilsu hans fer hrakandi á meðan hann fær ekki sjúkraþjálfun. Hilmar er með fjórlima lömun og var gangandi fyrir nokkrum árum, en er nú kominn í hjólastól.

Hilmar segir borgina ýta sér í áttina að búsetu á hjúkrunarheimili – honum hafi í raun ekki verið gefinn neinn annar kostur sem stendur.

Að sögn Hilmars mun hann missa öll sín réttindi ef hann fær ekki að fara heim fyrir lok janúarmánaðar. Ástæðan sé sú að hann hafi ekki búið heima hjá sér í tólf mánuði og við það falla hans réttindi úr gildi.

Gerist það, mun hann í kjölfarið missa íbúð sína vegna skertra bóta.


Það er eins og þau hafi ekki búist við að ég myndi hafna varanlegri hjúkrunarvist

Ekki benda á mig

„Það hefur verið mjög erfitt að fá svör frá Reykjavíkurborg um það hvað þau ætla sér. Það er eins og þau hafi ekki búist við að ég myndi hafna varanlegri hjúkrunarvist.“

Fréttablaðið hefur undanfarið fjallað um málefni ungs, fatlaðs fólks sem dvelur á hjúkrunarheimilum, sum þeirra gegn vilja sínum. Fjöldinn hefur farið vaxandi síðustu ár vegna úrræðaleysis. Nú búa 144 fatlaðir einstaklingar, sem eru undir 67 ára, á hjúkrunarheimilum.

Ríki og sveitarfélög benda hvert á annað um veitingu þjónustu til þessa hóps.

Athugasemdir