Hilmar Jökull Stefánsson, stjórnarmeðlimur Tólfunnar, segist leiður yfir að áform um að koma háskólanemanum  og dyggasta stuðningsmanni íslenska fótboltalandsliðsins þar í landi, Mohammad Sayeed til Íslands sé að fara út um þúfur.

Sænska sendiráðið í Bangladess synjaði Sayeed um vegafbréfsáritun í morgun. Hann hafði sótt um tímabundið landvistarleyfi til að geta heimsótt Ísland í eina viku í október til þess að fylgjast með landsleik Íslands við Frakka þann 10. október en var synjað.

Hilmar Jökull, ásamt Tólfunni, stuðningsmannaliði íslensku landsliðanna, stóð að söfnun fyrir Sayeed, eftir að hann vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum fyrir brennandi áhuga sinn á íslenska landsliðinu.

Söfnunin gekk vel með hjálp ýmissa aðila og sagði Sayeed við Fréttablaðið af tilefninu: „Ég er svo ó­­­trú­­lega hamingju­­samur. Ég bjó til þetta risa­­stóra flagg og það vakti svona mikla at­hygli. Ég trúi því varla að það sé á leið til Ís­lands og að Ís­­lendingar muni fá að sjá það í eigin per­­sónu,“ sagði hann við til­efnið.

Þrýstir á stjórnvöld um að koma til aðstoðar

„Ég vil þrýsta á íslensk stjórnvöld að veita okkur aðstoð í málinu. Það eru bara tvær vikur til stefnu þangað til hann ætti að setjast upp í flugvél og fljúga til Íslands. Miðað við hvað ferlið tók langan tíma í sænska sendiráðinu veit ég að það myndi aldrei nást að senda inn áfrýjun.“

„Sayeed þarf að ferðast 800 kílómetra, aðra leið, til þess að komast í sænska sendiráðið í Dhaka, höfuðborg Bangladess, og hann hefur í raun ekki kost á að fara aftur fyrr en næsta sunnudag,“ segir Hilmar sem er leiður yfir að ferlið endi svona. Búið er að borga allan ferða- og tryggingarkostnað fyrir Sayeed til þess að hann komist hingað til lands.

Hér má sjá risafánann sem Sayeed útbjó sem þakklætisvott fyrir söfnunina.