Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, býður sig fram í oddvitasæti flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor.

Hildur tilkynnti þetta í Íslandi í dag á Stöð 2 rétt í þessu. Búist er við því að Sjálfstæðisflokkurinn haldi prófkjör í febrúar til að kjósa um oddvita. Hildur mun keppa við Eyþór Arnalds um sætið en hann hefur áður sagst gefa kost á sér.

„Mig langar að verða borgarstjóri í Reykjavík og það þýðir að ég ætla að bjóða mig fram í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokknum í næstu borgarstjórnarkosningum,“ segir Hildur. Hún segist ætla að leggja áherslu á samgöngu- og leikskólamál.

Í síðustu kosningum skipaði Hildur annað sætið og hefur verið í borgarstjórn á þessu kjörtímabili.