Hildur Björns­dóttir, odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í borginni, segir að margir mögu­leikar séu á borðinu við myndun nýs meiri­hluta. Þetta kemur fram í Face­book færslu Hildar en þar segir hún bandalag S, P og C þráskallast við að halda völdum.

Þar segir tjáir hún sig um út­spil Við­reisnar sem skoraði í gær á Fram­sókn að ganga til meiri­hluta­við­ræðna við bandalag Við­reisnar, Sam­fylkingar og Pírata. Hildur segir niður­stöður kosninganna hafa verið skýrar, Sjálfstæðismenn séu reiðubúnir til að vinna með hverjum sem er.

„Meiri­hlutinn féll með af­gerandi hætti. Þeir flokkar sem stóðu utan sitjandi meiri­hluta fengu nær 60% kosningu. Kjós­endur kölluðu eftir breytingum,“ skrifar Hildur.

Skýrt á­kall á breytt stjórn­mál

Hildur segir að úr kjör­kössunum hafi birst skýrt á­kall á breytt stjórn­mál. „Klækja­stjórn­málum úr Ráð­húsi Reykja­víkur var hafnað. Ná­kvæm­lega sömu klækja­stjórn­málum og þrjósku­banda­lag Sam­fylkingar, Við­reisnar og Pírata beitir nú við meiri­hluta­við­ræður. Banda­lagið þrá­skallast við að halda völdum sem kjós­endur vilja ekki fela þeim lengur – með úti­lokunum og þvingunum. Það getur tæp­lega talist upp­taktur að far­sælu sam­starfi fyrir Fram­sóknar­flokkinn.“

Hún segir að til allrar hamingju þurfi enginn að undir­gangast slíkar þvinganir, margir mögu­leikar séu á borðinu við myndun meiri­hluta.

Ekki síst ef flokkarnir velja að svara á­kalli kjós­enda eftir mál­efna­legum stjórn­málum og aukinni sam­vinnu um mikil­væg fram­fara­mál. Sjálf­stæðis­flokkurinn er reiðu­búinn til sam­tals við alla flokka um verk­efni næsta kjör­tíma­bils. Við gengum ó­bundin til kosninga, boðuðum breytingar og vorum heiðar­leg gagn­vart okkar kjós­endum,“ skrifar Hildur.

„Nú reynir á Fram­sóknar­flokkinn – og auð­vitað alla flokka innan borgar­stjórnar - að hafa hug­rekkið til að svara kröfu kjós­enda um breytt stjórn­mál.“