Hildur Sverrisdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, minntist Elísabetar Bretlandsdrottningar í ræðu sinni á Alþingi í kvöld.

Hún segist hafa átt erfitt með að trúa því þegar hún heyrði að drottningin væri fallin frá í síðustu viku. „Það er stundum eins og við trúum því að sumir hlutir gerist bara ekki - jafnvel þeir sem við vitum að eru ekki óhagganlegir. Ég held við séum öll dálítið slegin yfir því að Elísabet drottning hafi í alvöru fallið frá.“ sagði hún.

„Hvað sem fólki finnst um konunga- og drottningaveldi þá misstum við þar eina sterkustu tengingu samtímans við tuttugustu öldina og uppruna nútímans sem við búum við. En við misstum líka manneskju sem gerði sér ríka grein fyrir ábyrgð þeirra sem fara með völd - mikilvægi þess að láta yfirvegun ráða för og að vera stór í hlutverki sínu.“ sagði Hildur í ræðu sinni og sagði fráfall Elísabetar áminningu um það að heimsmynd okkar sé ekki óhagganleg.

„Drottningar deyja, það verða eldgos og stríð. Og við getum misst það sem við höfum ef við pössum okkur ekki – ef við missum sjónar á stóru myndinni.“ sagði Hildur síðan í lok ræðu sinnar áður en hún ítrekaði mikilvægi upplýstra skoðannaskipta.

„Við höfum því einfaldlega ekki efni á að eyða tíma í smáa umræðu þar sem staðreyndir og skoðanaskipti drukkna í upphrópunum flennifyrirsagna. Heldur verðum við að hlusta á mismunandi sjónarmið, -staðreyndir, miðla málum og forgangsraða. Þannig verða stjórnmál stór, og um leið getum við treyst því að stórir hlutir geta gerst.“ sagði hún.