„Frumvarpið miðar að því að auka möguleika fólks til að verða foreldrar með hjálp tækninnar í krafti eigin ákvörðunarréttar,“ segir Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem mun samkvæmt dagskrá þingsins mæla í dag fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um tæknifrjóvgun. Hún átti að mæla fyrir því í gær en það náðist ekki inn á dagskrá þingsins.

„Ef fólk slítur sambúð eða hjónabandi, eða annar aðilinn andast, verður samkvæmt núgildandi lögum að farga öllum fósturvísum þrátt fyrir að það liggi fyrir vilji og samþykki beggja aðila um að fósturvísarnir verði nýttir. Þetta fyrirkomulag er allt of stíft og sársaukafullt og verður að breyta.“

Fulltrúar allra flokka á Alþingi standa með Hildi að málinu sem nú er lagt fram öðru sinni.

Frumvarpið felur í sér einföldun regluverks í kringum tæknifrjóvganir ásamt auknu frelsi, trausti og sjálfsákvörðunarrétti tilvonandi foreldra sem þurfa að notast við tæknifrjóvgun. Verið er að draga úr stýringu ríkisins og auka svigrúm þegar kemur að þessum þætti í lífi fólks.

„Reglur eru fyrir fólk og löggjafinn má ekki að vera hræddur við að endurskoða þær í takt við tímann. Ég tel að frumvarpið sé mikilvægt skref í því,“ segir Hildur.