Hildur Guðbjörg Benediktsdóttir, fráfarandi ritari Sambands ungra framsóknarmanna, hefur tekið við formennsku í Ungliðahreyfingu miðjuflokka Norðurlandanna (Nordiska Centerungdomens Förbund eða NCF). Í samtökunum eru um 15 til 16 þúsund félagar.

Lilja fyrirmyndin

Hildur er frá Flúðum og fékk snemma áhuga á stjórnmálum. Hún getur þakkað foreldrum sínum fyrir þann áhuga, en þau voru dugleg að ræða pólitík við matarborðið.

„Þegar ég var krakki var ég í algjörri afneitun en þegar ég varð 16 ára áttaði ég mig á áhuganum og vildi taka þátt í samtölunum.“

Auk þess að gegna formennsku starfar Hildur sem aðstoðarmaður dýralæknis.

Aðspurð segir hún Lilju Alfreðsdóttur vera fyrirmynd hennar í stjórnmálum á Íslandi.

„Mér finnst Lilja ótrúlega flott. Annie Lööf er einnig fyrirmynd. Flottar konur sem er í forystu og eru að gjörsamlega að rústa þessu,“ segir Hildur.

Ýmsar áskoranir fram undan

Hildur var varaforseti regnhlífarsamtakanna og tók við stöðunni eftir að fráfarandi formaður steig til hliðar. Hún mun leiða NCF út kjörtímabilið og hyggst gefa kost á sér á ný á aðalfundi NCF næsta vor.

Ýmsar áskoranir eru fram undan fyrir samtökin.

„Við erum samsett af öllum unglingasamtökum miðjuflokka Norðurlanda og hefur helsta áskorun þetta ár verið að tryggja fjármagn, en við fengum ekki styrk frá Nordbuk í ár vegna breytinga á reglugerðum sjóðsins,“ segir Hildur í samtali við Fréttablaðið.

Staða framkvæmdastjóra var lögð niður vegna styrktarstöðunnar og hefur því verið mikið álag á stjórninni að halda samtökunum gangandi. Hildur segist vilja beina athyglinni að pólitísku starfi í Norðurlöndunum.

„Ég vil leggja áherslu á að tryggja fjármagn og fá inn starfsmann til að sinna framkvæmdarstarfi. Þannig getur stjórnin betur sinnt því sem skiptir mestu máli sem er stjórnmálastarfið og stefnumótun,“ segir Hildur.

Stjórnin hittist í Malmö þar sem Hildur tók við formennsku NCF.