Hildur Björns­dóttir, odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík, segir að taka megi um­ræðu um það hvernig full­trúar sumra stjórn­mála­flokka höguðu sér eftir sveitar­stjórnar­kosningarnar í vor. Nýr meiri­hluti Fram­sóknar­flokks, Sam­fylkingar, Pírata og Við­reisnar í borginni var kynntur í gær.

Hildur ræddi nýjan meiri­hluta og stjórnar­sátt­mála í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Hildur sagðist skynja að margir væru argir yfir nýjum meiri­hluta því niður­staða kosninganna hafi verið skýr þar sem kallað var eftir breytingum.

„Þetta er ekki sú breyting sem fólk sá fyrir sér. Þannig að ég skil alveg það ergelsi í fólki,“ sagði hún og bætti við að Sjálf­stæðis­flokkurinn hafi viljað vera í meiri­hluta og stefnt á það fyrir kosningar að vera í meiri­hluta. „Og við töluðum fyrir breytingum og það er flokkur þarna í meiri­hluta sem náði góðri kosningu á grund­velli þess að boða breytingar,“ sagði Hildur og vísaði í Fram­sóknar­flokkinn.

Spurð að því hvort hún væri svekkt út í Fram­sókn sagðist Hildur ekki vera það, ekki væri hægt að ganga að neinu sem vísu. Hún setti þó spurningar­merki við hegðun full­trúa sumra flokka í meiri­hluta­við­ræðum eftir kosningar.

„Við höfum þá vinnu­reglu í Sjálf­stæðis­flokknum að geta starfað með öllum. Við höfum þá vinnu­reglu að styðja öll góð mál, vinnum með meiri­hluta að góðum málum en gerum á­greining um mál sem við erum ó­sam­mála. Þarna birtist okkur leiðinda­pólitík þar sem úti­lokað er sam­starf við flokka og það eru mynduð banda­lög til að ein­angra aðra,“ sagði hún og nefndi einnig að sumir hefðu ekki einu sinni tekið símann.

„Þetta var svo­lítið hegðun sem við kennum börnunum okkar að sé ekki æski­leg. Hún var ein­hvern veginn á­stunduð þarna.“

Að­spurð hvort lands­málin, Ís­lands­banka­málið til dæmis, hefðu skemmt fyrir Sjálf­stæðis­flokknum sagði Hildur:

„Ég held það hafi klár­lega skemmt fyrir okkur í kosningunum en þetta er kúltúr sem við höfum séð í lengri tíma í borgar­stjórn, ná­kvæm­lega þessi menning.“

Hildur gaf lítið fyrir sátt­mála nýs meiri­hluta og sagði að inni­haldið væri lítið miðað við um­búðirnar. „Orða­fjöldinn er nánast sá sami og í sátt­málanum 2018 en blað­síðu­fjöldinn hefur tvö­faldast.“

Hildur sagðist þar að auki ekki sjá mörg af stefnu­málum Fram­sóknar­flokksins í sátt­málanum. Kafli um hús­næðis­mál væri til dæmis byggður á á­formum gamla meiri­hlutans. „Mér finnst kannski einu fingra­för Fram­sóknar í þessum sátt­mála vera frítt í stund og strætó fyrir börn. Mér sýnist það vera það eina sem Fram­sókn hefur náð í gegn.“