Tónskáldið Hildur Guðnadóttir er ekki tilnefnd til óskarsverðlauna í ár. En tónlist hennar í kvikmyndinni Women Talking var á 15 mynda lista þeirra sem komu til greina. Kynnarnir Riz Ahmed og Allison Williams kynntu tilnefningarnar í útsendingu sjónvarpsstöðvarinnar ABC rétt í þessu.

Þær kvikmyndir sem tilnefndar eru eru þessar:

All Quiet on the Western Front (Volker Bertelmann)

Everything Everywhere All at Once (Son Lux)

Babylon (Justin Hurwitz)

The Banshees of Inisherin (Carter Burwell)

The Fabelmans (John Williams)

Eftir tvö þögul ár í kvikmyndum eftir velgengni The Joker kom Hildur aftur inn á sjónarsviðið með tónlist í tveimur kvikmyndum. Annars vegar Tár eftir Todd Field og hins vegar Women Talking eftir Söru Polley.

Óskarsakademían úrskurðaði hins vegar í desember að tónlistin í Tár væri ekki gjaldgeng þar sem ekki væri nægilega mikið af frumsamdri tónlist í henni. En í henni er tónlist eftir gamla klassíska meistara á borð við Johann Sebastian Bach, Gustav Mahler og Edward Elgar.

Framan af var búist við því að Hildur hlyti tilnefningu til Óskarsverðlauna, sérstaklega eftir að tónlist hennar í Women Talking var tilnefnd til Golden Globe verðlauna í desember. Það kom hins vegar bakslag í þessar vonir þegar tónskáldið Justin Hurwitz tók heim Golden Globe styttuna og að Hildur fékk ekki tilnefningu til bresku BAFTA verðlaunanna.