Hildur Guðnadóttir, tónskáld, hlaut rétt í þessu Óskarsverðlaun fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker en Hildur er fyrsti Íslendingurinn til að hljóta verðlaunin. Þá er Hildur aðeins fjórða konan í 92 ára sögu Óskarsverðlaunanna til að hljóta Óskarsverðlaun fyrir frumsamda tónlist.

„Til stelpnanna, til kvennanna, til mæðranna, til dætranna, sem heyra í tónlistinni rísa upp að innan; látið í ykkur heyra. Við þurfum að heyra raddir ykkar,“ sagði Hildur í þegar hún tók við styttunni en hún þakkaði fjölskyldunni sinni einnig í ræðunni.

Verðlaunin voru þau nítjándu í röðinni, af 24, og voru Alexandre Desplat, John Williams, Randy Newman og Thomas Newman einnig tilnefndir í flokknum, Desplat fyrir Little Women, Williams fyrir Star Wars: Episode IX - The Rise of Skywalker, Randy Newman fyrir Marriage Story, og Thomas Newman fyrir 1917.

Stórstjörnurnar Sigourney Weaver, Brie Larson og Gal Gadot sáu um að afhenda Hildi styttunna og var hún því í góðra kvenna hópi fyrir þessa sögulegu stund. .

Sex tilnefningar og einn sigur

Hildur var annar Ís­lendingurinn til að hljóta ­til­nefningu í flokknum en Jóhann Jóhanns­son var til­nefndur fyrir The Theory of E­veryt­hing árið 2015 og Si­cario árið 2016.

Auk Hildar og Jóhanns hafa fjórir einstaklingar hlotið tilnefningu til Óskarsverðlauna; mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Börn náttúrunnar, hlaut tilnefningu fyrir bestu erlendu myndina árið 1991, Björk Guðmundsdóttir hlaut tilnefningu fyrir besta lagið í Myrkradansaranum árið 2000, og stuttmynd Rúnars Rúnarssonar og Þóris Snæs Sigurjónssonar, Síðasti bærinn, hlaut tilnefningu fyrir bestu leiknu stuttmyndina árið 2005.