Þegar talin hafa verið 2213 atkvæði af 5545 atkvæðum, í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, leiðir Hildur Björnsdóttir með 1605 atkvæði í fyrsta sæti. Mótframbjóðandi hennar, í fyrsta sæti, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir er í öðru sæti eins og stendur með 1464 atkvæði í 1-2 sæti.

Í þriðja sæti er Kjartan Magnússon með 1185 atkvæði í 1-3 sæti og í fjórða Marta Guðjónsdóttir með 1177 atkvæði í 1-4 sæti.

Sviptingar um neðri sætin

Í fimmta sæti Björn Gíslason með 1104 atkvæði í 1-5 sæti og hefur hann skotist upp fyrir Friðjón R. Friðjónsson sem er nú í 6. sæti með 1020 sæti í 1-6. sæti. Í sjöunda sæti er Helgi Áss Grétarsson með 1220 atkvæði í 1-7 sæti.

Þá hafa orðið breytingar á sætum átta og níu en sem stendur er Valgerður Sigurðardóttir í áttunda sæti með 1326 atkvæði í 1-8 sæti og Jórunn Pála Jónasdóttir í því níunda með 1470 atkvæði í 1-9 sæti. Eftir að fyrstu tölur voru lesnar fyrr i kvöld var Sandra Hlíf Ocares í áttunda sæti og Birna Hafstein í því níunda.

Samkvæmt skoðanakönnun sem birtist í Fréttablaðinu í dag mælist flokkurinn með rétt rúm tuttugu prósenta fylgi í borginni sem er tíu prósentum lægra en flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Miðað við þessa könnun fengi flokkurinn fimm menn kjörna í borgarstjórn.