Hildur Björns­dóttir, borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins, býður sig fram í odd­vita­sæti flokksins fyrir borgar­stjórnar­kosningarnar næsta vor. Búist er við því að Sjálf­stæðis­flokkurinn haldi próf­kjör í febrúar.

„Ég trúi því að með réttum á­herslum og sigur­strang­legum og sam­heldnum lista getum við komið Sjálf­stæðis­flokknum í meiri­hluta næsta vor,“ segir hún.

„Það eru mörg verk­efni sem bíða hjá Reykja­víkur­borg. Fjár­hagurinn stendur afar illa, sam­göngu­vandinn fer vaxandi og bið­listar á leik­skóla eru ekki að styttast.“

Hildur segir að búast megi við nokkrum á­herslu­breytingum taki hún við. „Sjálf­stæðis­flokkurinn færi meira í átt að fram­tíðinni, ég legg á­herslu á að við horfum til þróunar í borgum allt í kringum okkur, auð­vitað þarf Reykja­vík að taka þátt í þeirri þróun ef hún ætlar að standast sam­keppni við er­lendar borgir um ungt hæfi­leika­fólkið okkar,“ segir hún.

Þá vill hún draga saman seglin í stjórn­kerfinu. „Á fjórum árum­hefur starfs­mönnum borgarinnar fjölgað um 20 prósent á meðan í­búum hefur fjölgað um átta prósent. Þetta er ó­sjálf­bær þróun og þessu þarf að vinda ofan af. Við þurfum að ein­beita okkur að þjónustu við fólkið. Það hefur gengið illa að manna leik­skólana, en gengið vel að manna hlýju skrif­stofu­stólana í yfir­byggingunni.“