Lokatölur úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins frá því í gær liggja nú fyrir og ljóst er að Hildur Björnsdóttir verður oddviti flokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor. Hildur hlaut 2.603 atkvæði og sigraði því helsta keppinaut sinn um oddvitasætið, Ragnhildi Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur, með 346 atkvæða forskoti

Á eftir Hildi og Ragnhildi kom Kjartan Magnússon í þriðja sæti með 1.815 atkvæði í 1. – 3. sæti, Marta Guðjónsdóttir með 1.794 atkvæði í 1. – 4. sæti, Björn Gíslason með 1.555 atkvæði í 1. – 5 sæti, Friðjón R. Friðjónsson með 1.688 atkvæði í 1. – 6. Sæti, Helgi Áss Grétarsson með 1.955 atkvæði í 1. – 7. sæti, Sandra Hlíf Ocares með 2.184 atkvæði í 1. – 8. sæti og Jórunn Pála Jónasdóttir með 2.396 atkvæði í 1. – 9. sæti. Litlar breytingar urðu því á sætaskipan frá síðustu tölum sem birtar höfðu verið. Helstu breytingarnar eru þær að Birna Hafstein og Valgerður Sigurðardóttir féllu niður um sæti og skipa því 10. og 11. sætið. Sandra Hlíf Ocares reis upp um nokkur sæti og tók fram úr þeim Jórunni og Valgerði á lokametrunum.

Sveitastjórnarkosningarnar fara fram þann 14. maí næstkomandi.