Banda­ríska skíða- og ævin­týra­konan Hilaree Nel­son fannst látin skammt frá toppi fjallsins Manaslu í Nepal í morgun. Hilaree hafði verið saknað síðan á mánu­dag, en hún hugðist skíða niður fjallið sem er það áttunda hæsta í heimi.

Með Hilaree í för var unnusti hennar, Jim Morri­son, og tókst þeim að klífa fjallið á mánu­dag áður en þau lögðu af stað niður á skíðum. Nel­son datt skömmu eftir að þau lögðu af stað og hvarf sjónum unnusta síns. Um­fangs­mikil leit var gerð í kjöl­farið og fannst lík hennar í morgun sem fyrr segir.

Nel­son, sem var 49 ára, var ein virtasta fjalla­skíða­kona sinnar kyn­slóðar og mjög öflug fjall­göngu­kona. Fyrir um ára­tug varð hún fyrsta konan í sögunni til að komast á topp Mount E­verest og Lhot­se með innan við 24 klukku­stunda milli­bili.

Árið 2018 varð hún svo fyrsta manneskjan til að skíða niður Lhot­se, sem er fjórða hæsta fjall heims, og var hún út­nefnd ævin­týra­manneskja ársins hjá National Geo­grap­hic það ár.